- Auglýsing -
- Auglýsing -

HMU18: Langar að ná ennþá lengra

Sætum sigri fagað. Í bakgrunni má greina vaskan hóp foreldra og forráðamanna leikmanna sem studdu liðið með ráðum á dáð frá upphafi til enda mótsins. Mynd/Brynja
- Auglýsing -

„Okkur hefur gengið ótrúlega vel fram til þessa, við erum alls ekki orðnar saddar. Okkur langar að ná ennþá lengra,“ sagði Lilja Ágústsdóttir fyrirliði U18 ára landsliðsins í handknattleik kvenna þegar handbolti.is heyrði í henni hljóðið upp úr hádeginu þegar hún var ásamt liðsfélögum að ljúka við liðsfund með þjálfurunum Árna Stefáni Guðjónssyni og Ágústi Þór Jóhannssyni þar sem lagðar voru línur fyrir æfinguna síðdegis.


Lilja og félagar í 18 ára landsliðinu náðu þeim sögulega árangri að komast í átta liða úrslit á heimsmeistaramótinu sem staðið hefur yfir í Skopje í Norður Makedóníu frá 30. júlí. Viðlíka árangri hefur íslenskt kvennalandslið ekki náð áður á heimsmeistaramóti.

Markmiðin náðst til þessa

„Fyrsta markmiðið var að komast upp úr riðlinum. Það gekk mjög vel svo næst var á dagskrá að komast í átta liða úrslit. Því markmiði höfum við líka náð. Næsta takmark er að vinna Norður Makedóníu á morgun.

Framar vonum

Þegar við lögðum af stað þá reiknuðum við alls ekki með að ná svona góðum árangri þótt við vissum að við værum góðar,“ sagði Lilja sem segir hópinn vera samstíga enda þekkjast stelpurnar vel eftir að hafa verið flestar saman við æfingar og keppni síðasta árið, m.a. á Evrópumótinu í fyrrasumar, í æfingaleikjum í Danmörku og Færeyjum auk forkeppni fyrir HM undir lok síðasta árs. Hópurinn er þar með orðinn vel sjóaður, einbeittur og metnaðarfullur.

Liðsandinn er geggjaður

„Liðsandinn er geggjaður og breiddin í hópnum er frábær. Það er sama hver kemur inn á það leysa allir sín hlutverk mjög vel,“ sagði Lilja en eftir fjórar viðureignir er íslenska liðið taplaust, hefur unnið þrjá leiki og gert eitt jafntefli.
M.a. hefur landsliðið unnið Svía og gert jafntefli við Svartfellinga en bæði landslið hafa verið á meðal þeirra allra fremstu á stórmótum yngri landsliða um árabil.

Góður undirbúningur

„Það er ótrúlega gaman að sjá hvað við höfum bætt okkur mikið og náð að undirstrika að við eigum fulla möguleika gegn þessum sterku landsliðum.
Eitt lykilatriðið er að við höfum búið okkur mjög vel undir alla leikina á mótinu, forðast vanmat, sama gegn hverjum við höfum leikið hverju sinni. Aginn er góður og mikil ró yfir leik okkar sem er til sóma,“ sagði Lilja.

Hvernig gengur að venjast nýja boltanum? 
„Var smá bras til að byrja með meðan við vorum að venjast boltanum. Okkur hefur gengið sæmilega að venjast boltanum en sannarlega er þetta svolítið öðruvísi. Ef ég fengi að ráða þá myndi ég frekar velja harpix. En þetta reddast og kemur jafnt niður á öllum. 
Maður þarf að halda fastar á boltanum. Þegar leikið er í miklum hita eins og er hér í keppnishöllunum þá svitnar maður mikið sem gerir enn erfiðara að ná góðu valdi á boltanum,“ segir Lilja og bendir á að með mikilum hita í Skopje, á milli 30 og 40 gráður dag hvern, verði molluhiti inn í keppnishöllinni. Brynja Ingimarsdóttir liðsstjóri heldur leikmönnum hressilega við efnið við drykkju á vatni og orkudrykkjum sem er lífsnauðsynlegt við þessar aðstæður.


Annað kvöld leikur íslenska liðið við heimaliðið, Norður Makedóníu, í úrslitaleik um efsta sætið í milliriðli eitt. Bæði lið eru taplaus. Mikil stemning er í kringum heimaliðið. Lilja segist ekkert óttast það. Allt verður lagt í sölurnar til þess að hefna fyrir eins marks tap í úrslitaleik B-hluta Evrópumótsins á síðasta sumri.

Skuldum þeim ekkert

„Við skuldum þeim ekki neitt. Okkar markmið verður að berja á þeim frá fyrstu mínútu. Við ætlum að gera okkur besta til þess að hefna fyrir tapið á EM í fyrra. Það ríkir mikil eftirvænting hjá okkur fyrir leiknum.


Sigur í leiknum færir okkur efsta sætið í milliriðlinum sem væri geggjaður árangur,“ sagði Lilja Ágústsdóttir fyrirliði U18 ára landsliðs kvenna í handknattleik í samtali við handbolta.is.


- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -