- Auglýsing -
- Auglýsing -

HMU18: Til mikillar fyrirmyndar

Brynja Katrín Benediktsdóttir að skora mark gegn íranska landsliðinu á HM í dag. Mynd/IHF
- Auglýsing -

„Ég er gríðarlega ánægður með kraftinn og vinnusemina í liðinu í dag. Stelpurnar voru virkilega kraftmiklar og orkan skein af þeim frá byrjun. Sex núll vörnin var feikilega góð og einnig markvarslan. Við stóðum lengi í vörn í hvert skipti svo það reyndi verulega á leikmenn að halda einbeitingu. Þetta stendur upp úr eftir góðan sigur,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson annar þjálfari U18 ára landsliðs kvenna þegar handbolti.is heyrði í honum hljóðið eftir öruggan sigur íslenska liðsins á Íran, 28:17, í fyrstu umferð milliriðlakeppni heimsmeistaramótsins í Skopje síðdegis í dag.


„Frá upphafi tókst okkur að halda uppi miklum hraða og keyra hressilega á íranska liðið frá upphafi. Tæknifeilar voru fáir og til mikillar fyrirmyndar. Margir leikmenn lögðu lóð á vogarskálarnar í sóknarleiknum sem var mjög jákvætt. Okkur tókst að opna vörn íranska liðsins hvað eftir annað,“ sagði Ágúst Þór sem var heilt yfir ánægður með sigurinn á Íran sem hafði unnið tvo af þremur leikjum sínum á mótinu þegar kom að viðureigninni við Ísland í dag.


Frí verður frá leikjum á HM á morgun áður en kemur að viðureign við Norður Makedóníu á föstudaginn klukkan 18.30. Eftir tvo leiki í röð sagði Ágúst Þór það verða kærkomið að kasta aðeins mæðinni og búa sig undir afar erfiða viðureign við lið heimakvenna sem getur haft talsvert að segja um hvort íslenska landsliðið nái þeim sögulega árangri að komast í átta liða úrslit á heimsmeistaramótinu.


„Við æfum þegar líður á morgundaginn reynum að ná góðri endurheimt. Lið Norður Makedóníu er harðsnúið, ekki síst á heimavelli með mikla stemningu á bak við sig.


Fyrst og fremst er ég gríðarlega ánægður með stelpurnar. Þær hafa mætt einbeittar til leiks og haldið góðum aga í leik sínum fram til þessa í keppninni. Fagmennskan hefur skinið af þeim,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson annar þjálfari U18 ára landsliðsins í samtali við handbolta.is en hann var að rjúka í að fylgjast með viðureign Svíþjóðar og Norður Makedóníu í riðli íslenska landsliðsins.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -