- Auglýsing -
- Auglýsing -

HMU19: Færeyingar gerðu sér lítið fyrir og lögðu Þjóðverja

Leikmenn færeyska landsliðsins fagnar sigrinum á Þjóðverjum á HM 19 ára landsliða í dag. Mynd/Croatia 2023 / Kolektiff images
- Auglýsing -

Landslið Færeyinga vann í dag þýska landsliðið, 30:28, í fyrri umferð í milliriðlakeppni heimsmeistaramótsins í handknattleik 19 ára landsliða sem fram fer í Króatíu, 30:28. Þar með halda Færeyingar í von um sæti í átta liða úrslitum mótsins en til þess verða þeir að minnsta kosti að fá eitt stig úr viðureign sinni við Sádi Araba sem hafa reynst sýnd veiði en ekki gefin á mótinu fram til þessa.

Mest sex mörkum yfir

Sigur Færeyinga kom mörgum á óvart þar sem þýska liðið þykir líklegt til afreka á mótinu. Færeyingar voru tveimur mörkum yfir í hálfleik, 12:10. Þeir náðu síðan sex marka forskoti í síðari hálfleik, 28:22. Þjóðverjar reyndu allt hvað þeir gátu í lokin til að jafna metin en færeysku piltarnir stóðu af sér öll áhlaup þýska liðsins og fögnuðu kærkomnum og sætum sigri.

Færeyingar hafa aldrei áður unnið Þjóðverja í handknattleik karla og því er sigurinn sögulegur.

Óli fór á kostum

Eins og áður var hinn hæfileikaríki Óli Mittún allt í öllu hjá Færeyingum. Hann skoraði 13 mörk í 20 skotum og réðu Þjóðverjar ekkert við piltinn. Línu- og varnarmaðurinn sterki, Ísak Vedelsbøl, skoraði sex mörk eins og Jákup Egholm. Jákup er aðeins 15 ára gamall.

Alexander Lacok markvörður var með 36% hlutfallsmarkvörslu.

Óli skoraði 17 mörk gegn Svíum á dögunum. Hann er markahæsti leikmaður mótsins með 50 mörk í fjórum leikjum og virðist ætla að fylgja eftir árangri sínum á EM 18 ára landsliða í fyrra þegar hann var bæði markahæstur og besti leikmaður mótsins.

Færeyingar eiga von um sæti í átta liða úrslitum HM 19 ára landsliða karla. Mynd/Croatia 2023 / Kolektiff images

Sádi Arabar unnu Írana í síðari leik riðilsins, 29:26. Þar af leiðandi er hvert lið riðilsins með tvö stig fyrir lokaumferðina á morgun. Færeyingar mæta Sádi Aröbum sem virðast vera með hörkulið. Íran leikur við Þýskaland.

Hér má nánar sjá úrslit leikja í milliriðlakeppni HM og stöðuna í riðlunum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -