- Auglýsing -
- Auglýsing -

HMU19: Tap fyrir Egyptum – Ísland ekki á meðal 16 efstu

Heimir Ríkarðsson er þjálfaMynd/IHF / HRS / kolektiff
- Auglýsing -

Íslenska landsliðið í handknattleik karla, skipað leikmönnum 19 ára og yngri, leikur um sæti 17 til 32 á heimsmeistaramótinu Króatíu. Liðið tapaði í dag fyrir Egyptum, 33:30, og hafnaði í þriðja sæti í C-riðli með tvö stig úr þremur leikjum.

Egyptar unnu riðilinn og taka sæti í 16-liða úrslitum ásamt Tékkum. Ísland og Japan leika um sætin í neðri hlutanum. Næsti leikur íslenska liðsins verður á mánudaginn, að öllum líkindum gegn Suður Kóreu.


Ísland var marki yfir í hálfleik, 15:14, eftir að hafa leikið frábærlega í 27 mínútur og verið með tögl og hagldir á leiknum. Forskotið var fimm mörk, 15:10. Allt virtist leika í lyndi. Því miður þá hrundi leikur liðsins eins og spilaborg. Egyptar skoruðu 11 mörk gegn einu á rúmlega 10 mínútna kafla og náðu fimm marka forskoti. Sóknarleikur Íslands gekk illa. Mörg upplögð færi fóru forgörðum og boltinn tapaðist oft.

Ívar Bessi Viðarsson, Ísak Steinsson, markvörður, og Skarphéðinn Ívar Einarsson. Mynd/IHF / HRS / kolektiff

Íslensku piltunum tókst að vinna sig út úr vandanum og jafna metin, 22:22. Lengra komust þeir ekki. Egyptum tókst að halda fengnum hlut. Markvörður liðsins, Youssef Ahmed, varði opin færi og því miður þá tapaðist boltinn oft á afar einfaldan hátt. Þar á ofan gekk íslensku piltunum illa að vinna kafla þegar þeir voru einum og jafnvel tveimur fleiri. Viðureignin var fast leikinn og oft gróf enda misstu Egyptar tvo leikmenn af velli með rautt spjald.

Eins og í fyrri viðureignum íslenska liðsins á mótinu til þessa var leikur þess afar kaflaskiptur sem kom því í koll.


Mörk Íslands: Reynir Þór Stefánsson 9, Eiður Rafn Valsson 6, Össur Haraldsson 4, Kjartan Þór Júlíusson 3, Þorvaldur Örn Þorvaldsson 3, Elmar Erlingsson 2, Ívar Bessi Viðarsson 2, Hans Jörgen Ólafsson 1.
Varin skot: Ísak Steinsson 12/3, 32% – Breki Hrafn Árnason 1, 20%.

HMU19: Dagskrá, úrslit og staðan, riðlakeppni

Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -