- Auglýsing -
- Auglýsing -

HMU21: Ætlum okkur fimmta sigurinn á mótinu

Andri Már Rúnarsson, Brynjar Vignir Sigurjónsson, Ísak Gústafsson, Stefán Orri Arnaldson, Róbert Gunnarsson, Kristófer Máni Jónasson, Andri Finnsson og Þorsteinn Leó Gunnarsson. Mynd/IHF/Jozo Cabraja
- Auglýsing -

„Við höfum unnið fjóra leiki á mótinu til þessa og markmiðið fyrir leikinn við Egypta er skýrt, við ætlum okkur að vinna fimmta leikin. Annað kemst ekki að. Einbeittur hugur ríkir hjá okkur öllum að ná toppleik,“ sagði Einar Andri Einarsson annar þjálfara U21 árs landsliðs karla í handknattleik í samtali við handbolta.is. Íslenska landsliðið mætir Egyptum í síðari viðureign sinni í milliriðlakeppni heimsmeistaramótsins í Melina Merkouri-íþróttahöllinni í Aþenu í dag. Flautað verður til leiks klukkan 14.30.

Egyptar töpuðu í gær fyrir Serbum með sjö marka mun, 33:26. Íslenska liðið lagði Grikki með einu marki, 29:28, og hefur fjögur stig í riðlinum. Serbar, sem leika við Grikki í dag, hafa tvö stig eins og Egyptar. Grikkir eru úr leik. Egyptaland, Ísland og Serbía keppa um tvö sæti í átta liða úrslitum heimsmeistaramótsins.

Staðan:

Ísland220061:574
Serbía210162:582
Egyptaland210162:632
Grikkland200258:650

*Ef þrjú lið verða jöfn að stigum þegar upp verður staðið ræðst röðin á markatölu í innbyrðis leikjum liðanna þriggja. Leikir neðsta liðsins strikast þá út.

Verðum að bæta okkar leik

„Við einbeitum okkur fyrst og fremst að okkur sjálfum. Við höfum farið vel yfir leikinn við Grikki. Í þeim leik voru ákveðin atriði sem við verðum að bæta, það er engin spurning. Varnarleikurinn var til að mynda alls ekki nógu góður. Það vantaði þéttleikann sem var gegn Serbum á föstudaginn. Það er alveg ljóst að við verðum að ná upp svipuðum leik og á móti Serbum til þess að leggja Egyptana,“ sagði Einar Andri sem þjálfar íslenska landsliðið ásamt Róberti Gunnarssyni.

Gefur ekki rétta mynd

Einar Andri sagði ljóst að frammistaða egypska landsliðsins gegn Serbum í gær gefi alls ekki rétta mynd af styrk Egypta sem eru Afríkumeistarar og eiga ævinlega öflug og vel þjálfuð yngri landslið.

Ólíkir sjálfum sér

„Serbar léku reyndar mjög vel gegn Egyptum. Engu að síður þá þótti mér Egyptar vera ólíkir sjálfum sér, vera talsvert frá sínu besta. Ég hef séð nokkra leiki egypska landsliðsins upp á síðkastið. Meðal annars léku þeir við Þjóðverja nokkrum dögum fyrir HM og töpuðu aðeins með eins marks mun í hörkuleik. Gegn Serbum í gær virkuðu Egyptarnir pirraðir, sennilega vegna þess að þeim tókst aldrei að ná upp sínum leik,“ sagði Einar Andri.

Hreinar línur

„Við verðum að ná toppframmistöðu til þess að vinna Egyptana. Það er skemmtilegra að fara áfram með sigri og hreinum línum í stað að þurfa að treysta á niðurstöður allskyns útreikninga,“ sagði Einar Andri Einarsson annar þjálfara U21 árs landsliðs karla ákveðinn í samtali við handbolta.is.

Fylgist með á handbolti.is

Handbolti.is hefur fylgist grannt með íslenska liðinu síðan heimsmeistaramótið hófst fyrir viku. Ekki verður slegið slöku við næstu daga, hvernig sem gengur. Viðureign Íslands og Egyptalands, sem hefst klukkan 14.30 í dag, verður í textalýsingu eins og aðrir leikir Íslands á mótinu. Einnig verður birtur hlekkur á steymi frá leiknum nokkru áður en flautað verður til leiks í Melina Merkouri-íþróttahöllinni í Aþenu.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -