Árla dags á morgun tekur íslenski hópurinn sig upp frá Aþenu í Grikklandi hvar hann hefur verið frá 17. júlí og flýgur til Berlínar í Þýskalandi. Þar bíður íslenska landsliðsins, skipað leikmönnum 21 árs og yngri, leikur í átta liða úrslitum heimsmeistaramóts karla í handknattleik á fimmtudaginn. Eftir því sem næst verður komist er þetta í fyrsta sinn í þrjátíu ár sem Ísland á lið í átta liða úrslitum á heimsmeistaramóti 21 árs landsliða í karlaflokki.
Leikir átta liða úrslitanna fara fram á fimmtudaginn í Max-Schmeling-Halle í Berlín. Andstæðingur íslenska landsliðsins verður silfurlið Evrópumóts 20 ára landsliða fyrir ári, Portúgal.
Auk Íslands og Portúgal eiga Danir, Færeyingar, Króatar, Serbar, Ungverjar og Þjóðverjar lið í átta lið úrslitum. M.a. þeirra sem leika um sæti níu til sextán má nefna Frakka, Svía og Spánverja, allt handknattleiksþjóðir sem lengi hafa verið í fremstu röð. Þá er ógetið Norðmanna og Slóvena sem eru á meðal þjóðanna sem leika um sæti 17 til 32.
Viðureign Íslands og Portúgals hefst klukkan 13.45 að íslenskum tíma, 15.45 að staðartíma á fimmtudag.
Sigurliðið í leiknum mætir sigurliðinu úr viðureign Færeyinga og Serba í undanúrslitum. Tapliðin eigast við í keppni um sæti fimm til átta.
Leikjadagskrá 8-liða úrslita, 29. júní – allir tímar íslenskir:
11.15: Færeyjar – Serbía.
13.45: Ísland – Portúgal.
16.30: Ungverjaland – Króatía.
19.00: Þýskaland – Danmörk (Arnór Atlason er þjálfari danska landsliðsins).
Framhaldið
Fimm til átta, 1. júlí:
Færeyjar/Serbía – Ísland/Portúgal, kl. 8.
Þýskaland/Danmörk – Ungverjaland/Króatía, kl. 10.30.
Undanúrslit: 1. júlí:
Færeyjar/Serbía – Ísland/Portúgal, kl. 13.30.
Þýskaland/Danmörk – Ungverjaland/Króatía, kl. 16.
Úrslitaleikir á sunnudag:
2. júlí – 7. sæti kl. 8.
2. júlí – 5. sæti kl. 10.30.
2. júlí – 3. sæti – kl. 13.30.
2. júlí – 1. sæti – kl. 16.
Allir leiktímar eru miðið við klukkuna á Íslandi. Þýskaland er tveimur stundum á undan.