- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Hófu EM með 27 marka sigri

Leikmenn íslenska landsliðsins fagna stórsigri á Úkraínumönnum. Ljósmynd/EHF
- Auglýsing -

Íslenska landsliðið í handknattleik byrjaði með sannkallaðri flugeldasýningu í upphafsleik sínum á Evrópumóti 20 ára landsliða karla í Tri Lilije Hall, í Laško í Slóveníu í morgun. Þeir yfirspiluðu landslið Úkraínu og unnu með 27 marka mun, 49:22, eftir að hafa verið 15 mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 28:13.

Næsti leikur íslensku piltanna verður á morgun gegn Pólverjum. Flautað verður til leiks klukkan 14.40. Pólverjar mæta Svíum síðar í dag.

Ljóst var frá upphafi að mótspyrna Úkraínumanna yrði ekki mikil að þessu sinni. Strax á fyrstu mínútum var ljóst að getumunurinn var mikill, meiri en margir höfðu gert sér í hugarlund fyrirfram. Vörn íslenska liðsins var þétt og markvarslan góð. Upp úr þessu fékkst fjöldi hraðaupphlaupa. Eftir tíu mínútur var munurinn orðinn átta mörk, 10:2.

Áfram dróst í sundur með liðunum eftir því sem á fyrri hálfleik leið. Varnarleikur Úkraínumanna var ekki góður og markvarslan engin. Íslenska liðið skoraði áfram að vild auk þess að vinna boltann hvað eftir annað í vörninni og skorað hin svokölluðu auðveldu mörk í framhaldinu.

Síðari hálfleikur var svipaður og sá fyrri. Breki Hrafn Árnason leysti Ísak Steinsson af í markinu og stóð fyrir sínu eins og Ísak í fyrri hálfleik. Allir leikmenn fengu tækifæri til þess að taka þátt í leiknum og koma sér inn í mótið. Reynir Þór Stefánsson sem fór á kostum í fyrri hálfleik með níu mörk í 10 skotum kom til að mynda ekkert við sögu í síðari hálfleik.
Fyrst og fremst mjög góð byrjun á mótinu hjá íslenska liðinu þar sem allir leikmenn fengu sín tækifæri, náðu að hrista úr sér hrollinn og búa sig undir erfiðari leiki á morgun gegn Pólverjum og á móti Svíum á laugardag.

Þrettán af 14 útileikmönnum íslenska liðsins skoruðu mark í leiknum.

Mörk Íslands: Reynir Þór Stefánsson 9, Atli Steinn Arnarsson 5, Eiður Rafn Valsson 5, Össur Haraldsson 5, Elmar Erlingsson 4/2, Haukur Ingi Hauksson 4, Hinrik Hugi Heiðarsson 4, Andri Fannar Elísson 3, Birkir Snær Steinsson 3, Skarphéðinn Ívar Einarsson 3, Daníel Örn Guðmundsson 2, Gunnar Kári Bragason 1, Kjartan Þór Júlíusson 1.
Varin skot: Breki Hrafn Árnason 8, 47% – Ísak Steinsson 8, 38%.

Mörk Úkraínu: Andrii Kasai 4, Dmytro Redkyn 3, Mykola Protsiuk 3, Oleksandr Siryk 3, Nikita Zabolotnii 2, Valentyn Yarosjenko 2, Mykyta Ploshkin 2, Vladyslav Shcherbina 1, Oleksandr Dovbysh 1, Maksym Radchenko 1.
Varin skot: Emil Shchurov 5, 15% – Ivan Hrynkiv 1, 6%.

EMU20 karla: Leikir, úrslit og staðan, riðlakeppni

Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -