- Auglýsing -
- Auglýsing -

Höfum verið þéttir og haldið skipulagi

Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari karlaliðs Selfoss th. og Örn Þrastarson, aðstoðarþjálfari, bera saman bækur sínar. Þeir taka á móti Valsmönnum í kvöld. Mynd/Selfoss/SÁ

Selfoss-liðið hefur farið af stað að krafti eftir að þráðurinn var tekinn aftur upp í Olísdeildinni í lok janúar. Reyndar hóf Selfoss keppni síðar en flest önnur lið deildarinnar vegna þátttöku þjálfarans, Halldórs Jóhanns Sigfússonar, á HM í handknattleik þar sem hann stýrði landsliði Barein. Fyrsti leikur Selfoss var fyrir viku gegn Val. Síðan tóku við leikir gegn tveimur neðstu liðunum, Þór og ÍR. Selfoss vann viðureignirnar og er nú í öðru til fjórða sæti Olísdeildar með 11 stig og á leik til góða á Aftureldingu og FH sem hafa sama stigafjölda


Halldór Jóhann var nokkuð ánægður með árangurinn þegar handbolti.is hitti hann að máli eftir sigurinn á ÍR, 28:18, í íþróttahúsinu í Austubergi í gærkvöld.


„Sigurinn á Val fyrir viku var mjög sterkur. Eftir það höfum við verið nokkuð þéttir og haldið okkar við leikskipulagið. Þór og ÍR voru ekki með sitt sterkasta lið en við höfum haldið okkar striki og unnið þá á nokkuð sannfærandi hátt. Allir leikmenn hafa komist heilir frá þessu sem skiptir miklu máli,“ sagði Halldór Jóhann sem var afar drjúgur við að dreifa leikjaálaginu milli leikmanna sinn í viðureigninni við ÍR í gær.

Staðan í Olísdeild karla.

„Ég byrjaði strax í fyrri hálfleik að skipta mikið inn á. Það er nauðsynlegt að gera það þegar tækifæri gefst. Leikjadagskráin er mjög þétt og álag á lykilmenn er mikið fyrir vikið. Það verður þétt leikið næstu vikurnar. Þótt maður eigi ekki að velta næst leik fyrir sér, fyrr en sá síðasti er yfirstaðinn, þá verður maður að vera meðvitaður um að þegar maður hefur tækifæri til að dreifa álaginu að nýta það. Það hefur okkur tekist í síðustu leikjum,“ segir Halldór sem undirstrikar að líkamlegt ástand leikmanna Selfoss-liðsins sé mjög gott.


„Vinnan í fríinu var mjög góð sem er jákvætt. Það eru margir leikir framundan og ljóst að það verða allskyns úrslit í þeim vegna þess ástands sem hefur ríkt síðustu mánuði. Menn verða bara að halda aga og sinna sinni vinnu og freista þess að safna eins mörgum stigum og mögulegt er,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari Selfoss sem sækir Fram heim í Safamýri á næsta sunnudag.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -