- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Hornamaður ÍBV úr leik

Meistarar meistaranna 2020, karlalið ÍBV. Mynd/ÍBV
- Auglýsing -

Hornamaðurinn Gabríel Martinez Róbertsson leikur ekki með ÍBV næstu sex vikurnar vegna meiðsla. Þetta staðfesti Kristinn Guðmundsson, annar þjálfara ÍBV, við handbolta.is í gærkvöld eftir sigur ÍBV á ÍR í upphafsleik Olísdeildar karla í handknattleik, 38:31, í Austurbergi.

Gabríel fingurbrotnaði í viðureign ÍBV og Vals í Meistarakeppni HSÍ á sunnudagskvöldið. Hann fór af leikvelli meiddur í fyrri hálfleik. Stóðu þá vonir til að meiðslin væru ekki alvarleg en nú er annað komið fram. Kristinn sagði að brot væri á einni kjúku vísifingurs hægri handar. Nú væri ekkert annað að gera en að gefa brotinu tíma til að gróa. Það gæti tekið sex vikur að jafna sig vel. Kristinn sagði að það væri þó örlítil bót í máli að Gabríel væri örvhentur.

Auk Gabríels þá er Theodór Sigurbjörnsson, sem einnig er hægri hornamaður, einnig frá keppni um þessar mundir. Þjálfarar ÍBV verða að leggja mikið traust á Gauta Gunnarsson, ungan og efnilegan hægri hornamann. „Það er ekkert annað að gera en að taka þann sem er næstur í röðinni. Sem betur fer eru nokkrir efnilegir í kringum hópinn, þar á meðal Gauti,“ sagði Kristinn við handbolta.is.

Eins getur Svanur Páll Vilhjálmsson hlaupið í skarðið í hægra horninu en hann kom til ÍBV í sumar.

Þess má geta til fróðleiks að fyrrgreindur Gauti er sonur knattspyrnukappans Gunnars Heiðars Þorvaldssonar.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -