- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Hrepptu ekki óskabyrjun

Talant Dujshebaev, þjálfari Vive Kielce, huldi andlit sitt þegar hann velti fyrir sér slakri frammistöðu Andreas Wolff markvarðar liðsins í Búkarest í gær. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Sigvaldi Björn Guðjónsson og félagar í pólska meistaraliðinu Vive Kielce fengu ekki óskabyrjun í Meistaradeild Evrópu í handknattleik í gærkvöldi er þeir sóttu nýliða keppninnar, Dinamo Búkarest heim. Rúmenska liðið styrktist mikið í sumar og fékk m.a. hinn þrautreynda og sigursæla þjálfara Barcelona, Xavi Pascual, til liðs við sig.


Skemmst er frá því að segja að Vive Kielce tapaði leiknum með þriggja marka mun, 32:29. Sigvaldi kom lítið við sögu og átti aðeins eitt markskot. Haukur Þrastarson er ennþá fjarverandi vegna meiðsla. Hann sleit krossband fyrir 11 mánuðum.

Leikmenn Dinamo Búkarest fögnuðu sigrunum ákaflega. Mynd/EPA


Vive Kielce var aðeins með einn markvörð í leiknum í gær, Andreas Wolff. Hann náði sér alls ekki á strik og var aðeins með liðlega 13% markvörslu. Raúl Campos skoraði 11 mörk fyrir Dinamo. Arkadiusz Moryto var markahæstur hjá pólsku meisturunum með sjö mörk.

Sigur hjá Roland

Roland Eradze og félagar hans í úkraínska meistaraliðinu Motor Zaporozhye unnu öruggan sigur á Porto á heimavelli, 30:27, eftir að hafa verið fimm mörkum yfir í hálfleik, 15:10. Viachaslau Bokhan skoraði flest mörk leikmanna Motor, átta. Antonio Rodrigues skoraði sex mörk og var atkvæðamestur hjá Porto-liðinu.

Cindric úr leik?

Evrópumeistarar Barcelona hófu titilvörnina undir stjórn nýs þjálfara, Carlos Ortega, á sigri í Flensburg í Þýskalandi, 25:21. Gonzalo Perez de Vargas fór á kostum í marki Barcelona og var með 44% hlutfallsmarkvörslu. Barcelona-liðið var hinsvegar fyrir áfalli í leiknum þegar Luka Cindric meiddist á öxl. Óstaðfestar fregnir herma að hann verði að fara í aðgerð til að fá bót meina sinn. Barcelona hefur ekkert greint frá ástandi hans.


Svíinn Hampus Wanne og hinn dansk/þýski Aaron Mensing skoruðu sex mörk hvor fyrir Flensburg. Bosníski markvörður liðsins, Benjamin Buric, stóð de Vargas ekki langt að baki og var með 41% hlutfallsmarkvörslu. Dika Mem skoraði sjö mörk fyrir Barcelona og var markahæstur. Næstur var annar Frakki, Melvyn Richardson með sex mörk.

Nedim Remili fékk óblíðar mótttökur hjá Blaz Blagotinsek varnarmanni Veszprém. Mynd/EPA


Egyptinn Yahia Omar fór á kostum í liði Veszprém í sigri á PSG í Ungverjalandi, 34:31. Hann skoraði 10 mörk í 13 skotum. Manuel Strlek var næstur með átta mörk. Daninn Mikkel Hansen var aðsópsmestur hjá PSG með sjö mörk. Luka Karabatic kom þar á eftir með fimm mörk.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -