Björgvin Páll Gústavsson, markvörður Hauka og íslenska landsliðsins fagnar þeim breytingum sem ákveðið var að gera í gær á dagskrá Olísdeildar karla í handknattleik. Segir hann HSÍ og formenn félaganna eiga hrós skilið fyrir uppstokkun mótsins og skjót viðbrögð. Björgvin Páll óttast að fjölgun smita kórónveiru geti sett strik í reikninginn.
Björgvin Páll gagnrýndi fyrri leikjaáætlun harðlega m.a. í viðtali við handbolta.is. en þá var gert ráð fyrir að ekki yrði flautað til leiks af krafi í Olísdeildinni fyrr en eftir rúmar þrjár vikur með tveimur undantekningum. Nú stendur til að leika þrjár umferðir frá 25. apríl til og með 9. maí.
„HSÍ og formenn fèlaganna eiga hrós skilið fyrir uppstokkun, skjót viðbrögð og fyrir að setja handboltann og leikmennina í fyrsta sæti! Á sama tíma er sorglegt að horfa upp á að mögulega verður þessi draumur okkar um að ljúka tímabilinu enn fjarlægari þegar að tölur morgundagsins verða opinberaðar,“ skrifaði Björgvin Páll í færslu á Facebook en hann vísaði á hana þegar handbolti.is óskaði eftir áliti hans á breytingunum sem kynntar voru á leikjadagskrá Olísdeildar í gær.