- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

HSÍ sækist eftir boðsmiða á HM kvenna

Það skyldi þá aldrei vera að íslenska landsliðið verði ekki með á HM í lok þessa árs. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Handknattleikssamband Íslands ætlar að sækjast eftir öðrum af tveimur boðsmiðum (wildcard) sem stjórn Alþjóða handknattleikssambandsins, IHF, hefur til umráða vegna þátttöku á heimsmeistaramótinu í handknattleik kvenna sem fram fer í Danmörku, Noregi og Svíþjóð í lok nóvember og í desember á þessu ári. RÚV segir frá í dag eftir að hafa fengið ætlan HSÍ staðfesta.


Alls taka 32 landslið þátt í HM. Af þeim vinna 27 sig inn í gegnum forkeppni. Þrjú sæti koma í hlut gestgjafanna. Eins og undanfarin ár hefur stjórn IHF tvo boðsmiða á mótið í skúffu sinni. Slíkur háttur hefur verið á síðan um miðjan síðasta áratug, jafnt varðandi HM karla og kvenna. T.d. fékk karlalandslið Íslands sendan boðsmiða á HM 2015 eftir sérstaka atburðarás. Oft hafa boðsmiðarnir verið sendir Evrópuþjóðum. Þó hefur það ekki verið algilt.

Telja möguleika raunhæfa

Íslenska landsliðið féll úr keppni í Evrópuhluta umspils HM í síðustu viku eftir tap fyrir Ungverjum. Austurríki tapaði með minnstum mun í Evrópuhlutanum og er talið sennilegt til þess að fá boðsmiða í pósti. Þar á eftir töpuðu Ísland og Sviss með minnstum mun. Þar af leiðandi telja forráðamenn HSÍ það a.m.k. vera tilraunarinnar virði að falast eftir boði til þátttöku á HM samkvæmt frétt RÚV.

Einu sinni verið með

Ísland hefur einu sinni tekið þátt í HM kvenna. Það var fyrir 12 árum eftir að hafa unnið landslið Úkraínu í umspili. Vel gekk á HM. Ísland hafnaði í 12. sæti af 24 liðum og vann m.a. Svartfjalland og Þýskaland.


Framfarir hafa verið hjá kvennalandsliðinu á undanförnum árum og m.a. hefur það leitt til þess að Ísland verður í öðrum styrkleikaflokki af fjórum þegar dregið verður í riðla undankeppni EM á fimmtudaginn, sumardaginn fyrsta. Er það í fyrsta sinn í 10 ár sem Ísland er í öðrum styrkleikaflokki þegar dregið er í riðla undankeppnin Evrópumótsins í flokki kvenna.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -