- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Hugarfarsleg prófraun að vinna deildina á sannfærandi hátt

Sebastian Alexandersson þjálfari HK fylgist einbeittur með leik sinna manna. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

„Við höfum náð okkar markmiði að vinna deildina og um leið er farið að hilla undir lok lengsta undirbúningstímabils liðs fyrir þátttöku í Olísdeildinni. Við erum enn á því tímabili,“ sagði Sebastian Alexandersson annar þjálfari karlaliðs HK í samtali við handbolta.is í gærkvöld þegar HK hafði tryggt sér sigur í Grill 66-deild með sigri á Víkingi í uppgjöri tveggja efstu liða deildarinnar, 30:28, á heimavelli Víkings í Safamýri.

Greinileg þroskamerki

„Frammistaða okkar hefur verið upp og niður í vetur. Greinileg þroskamerki sjást þó á liðinu frá síðasta tímabili og þau eru meðal annars að þrátt fyrir að það spili á stundum illa í leikjum þá náum við að vinna leiki. Þótt við séum sannarlega ekki í Olísdeildinni þá gefa leikirnir og sigrarnir mönnum mikla reynslu við að vinna sig úr erfiðri stöðu þótt þeir hitti á slæma dag,“ sagði Sebastian sem tók við þjálfun HK ásamt Guðfinni Kristmannssyni sumarið 2021.

Víkingar voru erfiðir

„Við vorum ekki slakir í kvöld en Víkingar voru frábærir enda lögðu þeir allt í sölurnar. Sigur var þeim nauðsynlegur til þess að halda í vonina um að vinna deildina. Þeir gerðu okkur virkilega erfitt fyrir,“ sagði Sebastian en hans menn voru tveimur mörkum undir þegar sex mínútur voru til leiksloka í Safamýri í gærkvöld. Þeim tókst að snúa taflinu við á skrautlegum lokamínútum þar sem mikið gekk á. Talsvert var um brottrekstra og rauðu spjöldin voru síst spöruð af dómurunum, Gunnari Óla Gústafssyni og Þorvari Bjarma Harðarsyni, sem voru ekki í öfundsverðu hlutverki að greiða úr málum og það meira að segja eftir að flautað var til leiksloka.

Spennustigið var of hátt

„Spennustigið var alltof hátt hjá okkur sem varð þess valdandi að menn létu tilfinningarnar hlaupa með sig í gönur. Þetta hafðist hjá okkur að lokum, kannski vegna þess að menn hafa lært nógu mikið til þess að halda einbeitingu við að vinna sig út úr erfiðum stöðum,“ sagði Sebastian.

Æði misjöfn lið

Grill 66-deildin er að hluta til skipuð ungmennaliðum Olísdeildarliða auk nokkurra A-liða. Liðin eru æði misjöfn að styrkleika og oft virðast menn renna blint í sjóinn hver styrkleikinn verður á andstæðingnum hverju sinni. Sérstaklega á þetta við um ungmennaliðin. Spurður út í deildina sagði Sebastian hana verið mjög erfiða.

Erfiðari en Olísdeildin

„Í hreinskilni sagt þá er Grill 66-deildin erfiðari en Olísdeildin. Það er rosalega erfitt fyrir mannskapinn að búa sig undir næsta leik því á stundum vita menn ekkert hverjir skipa sum u-liðin. Menn eru oft að vanmeta ungu strákana sem skipa liðin. Margir þeirra eru mjög góðir.

Ekki til stærra próf

Ég sagði við mína menn fyrir tímabilið að það væri ekki til stærra hugarfarslegt próf en að vinna Grill 66-deildina og gera það vel. Ef við gætum það værum við vonandi komnir með nógu mikinn styrk til þess að takast á við verkefnið á næsta ári.

Verðum að taka fleiri framfaraskref

Við erum að búa til lið. Það var hlutverkið sem ég og Guðfinnur fengum sumarið 2021 þegar við voru ráðnir til HK, að búa til lið, ekki setja það saman. Síðan við tókum við þjálfun höfum við séð miklar framfarir á mörgum sviðum en við verðum að taka nokkur skref í sumar til að ná markmiðum okkar á næsta tímabili,“ sagði Sebastian Alexandersson annar þjálfari karlaliðs HK í samtali við handbolta.is í Safamýri í gærkvöld.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -