- Auglýsing -
- Auglýsing -

Hugsanlega frestað í Danmörku

Nikolaj Jacobsen landsliðsþjálfari Dana. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Óvíst er hvort viðureign Dana og Svisslendinga í undankeppni EM fari fram. Alltént er ljóst að leikurinn fer ekki fram í Árósum annað kvöld eins og til stóð.


Grunur um smit kom upp í herbúðum landsliðs Sviss í gærkvöld. Af þeim sökum ferðaðist liðið ekki til Danmerkur í morgun eins og til stóð. Allir leikmenn landsliðs Sviss fóru í skimun og sóttkví í gærkvöld. Beðið er niðurstöðu en reynist allir leikmenn og þjálfarar neikvæðir verður leikurinn hugsanlega fluttur yfir á fimmtudagskvöld, takist Svisslendingum að komast til Danmerkur í fyrramálið.

Ákvörðun um hvort leikurinn verður fluttur yfir á fimmtudag, ef allt reynist viðunandi í herbúðum svissneska landsliðsins, er í höndum Handknattleikssambands Evrópu, EHF, eftir því sem fram kemur í dönskum fjölmiðlum.

Morten Henriksen, íþróttastjóri danska handknattleikssambandsins, segir mögulegt að leika á fimmtudagskvöld en það verði ákvörðun EHF, hvort svo verði.

Til stendur að Danir mæti Finnum í Finnlandi á laugardag.


Tveir leikmenn landsliðs Sviss voru í kringum smitaðan einstakling í herbúðum Pfadi Winterhur um liðna helgi. Það kom ekki upp úr dúrnum fyrr en í gærkvöld þegar hinn smitaði greindist. Leikmennirnir tveir voru þá þegar komnir í æfingabúðir svissneska landsliðsins. Landslið Sviss kom saman til æfinga á sunnudag.

Uppfært kl. 17.50. Pfadi Winterhur hefur greint frá því að þjálfari karlaliðsins, Adrian Brüngger, hafi greinst smitaður og verið í nánum samskiptum við landsliðsmennina tvo eins og aðra leikmenn sína í kappleik á föstudagskvöld. Hann fann til einkenna á sunnudagskvöld. Fór þá í skimun. Jákvæð niðurstaða hafi legið fyrir í gær.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -