Til stendur að tilkynna í dag um val á landsliðshóp í handknattleik karla sem verður við æfingar hér á landi í næstu viku. Flest bendir til þess að Björgvin Páll Gústavsson, markvörður Vals, verði ekki í þeim hópi.
Í viðtali við Fréttablaðið, sem birtist á vef blaðsins í gær, segist Björgvin Páll ekki vera með hugann við landsliðið um þessar mundir heldur einbeiti hann sér að fjölskyldunni og eigin frammistöðu með Val. Af þeim sökum gefi hann ekki kost á sér í landsliðið á næstu vikum.
Björgvin Páll hefur farið hamförum í marki Vals það sem af er leiktíðar og var m.a. með 52,2% markvörslu í leik KA og Vals í 5. umferð Olísdeildarinnar í KA-heimilinu á sunnudaginn. Samkvæmt tölfræðiveitunni HBStatz var Björgvin Páll með 45,8% hlutfallsmarkvörslu í fimm fyrstu leikjum Vals í deildini.
Björgvin Páll hefur verið aðalmarkvörður landsliðsins nær sleitulaust síðan hann sló í gegn með landsliðinu á Ólympíuleikunum í Peking 2008 þegar íslenska landsliðið vann silfurverðlaun. Hefur hann m.a. tekið þátt í öllum stórmótum landsliðsins frá þeim tíma og á að baki 240 landsleiki.
Íslenska landsliðið mun eingöngu stunda æfingar í næstu viku hér á landi og hvorki eru vináttu- eða æfingaleikir eru á dagskrá. Segja má að æfingabúðirnar verði fyrsti liðurinn í undirbúningi fyrir þátttöku á Evrópumeistaramótinu sem fram fer í Ungverjalandi og Slóvakíu í janúar.