- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Hundfúll með sóknina og haltrandi dómara

Ólafur Brim Stefánsson, leikmaður Gróttu, sækir að vörn Aftureldingu í leiknum í kvöld Mynd/Eyjólfur Garðarsson
- Auglýsing -

„Það er hundfúlt að sóknar frammistaða okkar hafi ekki verið betri í kvöld miðað við það sem við leggjum í leikinn varnarlega og með þessa markvörslu,“ sagði Arnar Daði Arnarsson, þjálfari Gróttu eftir tapið fyrir Aftureldingu í Olísdeild karla í handknattleik í kvöld, 20:17, í Hertzhöllinni á Seltjarnarnesi.


„Að sama skapi erum við hundfúlir að fá ekkert útúr þessum leik en þegar upp er staðið áttum við ekkert meira skilið miðað við sóknarleik okkar,” bætti Arnar Daði við og dró ekki fjöður yfir vonbrigði sín með sóknarleik Gróttuliðsins sem var á tíðum slakur.

Höldum áfram að læra


„Það hefur áhrif að við missum bæði Daníel Griffin og Gunnar Dan út í fyrri hálfleik og því neyddumst við til að spila seinni hálfleikinn á færri leikmönnum og fyrir vikið mæðir mikið á þeim leikmönnum sem mynda þristablokkina okkar bæði varnar- og sóknarlega. Það hefur klárlega áhrif sóknarlega þegar þreytan fer að segja til sín. Við grátum ekki þennan leik endalaust. Við reynum að læra af hverjum leik og nýta okkur það áfram í næstu orrustu,“ sagði Arnar Daði sem var ekki aðeins óhress með leik sinn manna heldur einnig dómgæsluna sem honum þótti á köflum ekki viðunandi og jafnvel svo að það halli verulega á sitt lið. Enn verra var þó að annar dómarinn haltraði alla leikinn og átti fullt í fangi með að komast fram og aftur völlinn.


„Enn einn leikinn finnst mér halla á okkur í dómgæslunni í nokkrum 50/50 dómum sem falla nánast aldrei með okkur. Ég átta mig á því að við erum nýliðar og höfum verið að spila við lið með reynda þjálfara sem virðast vera með dómara deildarinnar í vasanum. Þeir félagar leystu þetta ágætlega í kvöld og ég efast ekki um að þeir voru að reyna gera sitt allra besta en ég kalla eftir betri frammistöðu.

Hverju má búast við?


En að sama skapi þá spyr ég sjálfan mig, við hverju á maður að búast frá haltrandi dómara? Myndi ég gera sömu kröfur á haltrandi leikmann og greinilega þjakaður af meiðslum eins og leikmann sem er ekki haltrandi? Hvar erum við stödd sem íþrótt, þegar við látum bjóða okkur upp á haltrandi dómara í efstu deild? Greyið maðurinn, átti í erfiðleikum með að hlaupa upp hálfan völlinn. Þér getur ekki liðið vel og í jafnvægi til að dæma eins erfiða íþrótt og handbolti er þegar þú ert ekki í betra líkamlega standi en þetta. Ég efaðist um að þessi dómari og reyndar fleiri í deildinni hafi náð hlaupaprófinu fyrir tímabilið. Ég spurði því eftirlitsdómarann eftir leik hvort ég hefði rétt fyrir mér. Hann tjáði mér að dómarar í deildinni hefðu ekki enn tekið hlaupapróf fyrir núverandi tímabilið. Eftirlitsdómarinn benti mér að spyrja framkvæmdastjóra HSÍ út í ástæðurnar. Ég sagðist ekki vilja vita ástæðurnar. “

Finnst fólki þetta boðlegt?

„Hvar er standardinn? Mér þætti gaman að sjá umræðuna ef við myndum sjá knattspyrnudómara í Pepsi Max-deildinni með svipaða holningu og nokkrir handboltadómararnir hér á landi haltra um völlinn. Finnst fólki þetta boðlegt?“ spurði Arnar Daði Arnarsson, þjálfari karlaliðs Gróttu að endingu í samtali við handbolta.is í Hertzhöllinni í kvöld.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -