- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Þórir:„Hvað þarf að gerast til að hætt verði við?“

Þórir Hergerisson, landsliðsþjálfari Noregs. Mynd/EPA
- Auglýsing -

„Ég get verið hreinskilinn með það en á síðustu dögum og vikum hef ég velt því fyrir mér hvort rétt væri að hætta við EM við þessar aðstæður sem ríkja. Óvissan er svo mikil,“ sagði Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins í handknattleik þegar handbolti.is sló á þráðinn til hans í morgun.

Hálfur mánuður er þangað til Evrópumót kvenna hefst í Danmörku. Síst virðist vera að draga úr kórónuveirusmitum víðast hvar í Evrópu. Í byrjun vikunnar hætti norska handknattleikssambandið við að vera gestgjafi mótsins ásamt Danmörku. Í Danmörku er unnið nótt sem nýtan dag til hægt verði að halda mótið. Meðal þess sem stendur á er heimild sóttvarnayfirvalda til að taka við fleiri keppendum og gestum vegna mótsins.

14 af 35 hjá Pólverjum smitaðar

Þórir segir stöðuna vera áhyggjuefni en að öllu óbreyttu hittist norska landsliðið í Kolding á Jótlandi á mánudaginn og hefur undirbúning fyrir EM.

„Nánast dag hvern berast mér skilaboð frá landsliðskonum sem eru í vafa um sína stöðu þar sem þær hafa tekið þátt í leikjum þar sem smitaðir leikmenn hafa verið. Síðast í morgun barst mér til eyrna að 14 af 35 leikmönnum í pólska hópnum væru smitaðar af veirunni. Fyrsti leikur okkar á EM verður gegn pólska landsliðinu eftir tvær vikur.“

Vaxandi hætta innan landsliða

„Þegar ástandið er svona þá veltir maður að sjálfsögðu fyrir sér hvenær staðan sé orðin svo alvarleg að ástæða sé til að slá mótið af. Hvað þarf að gerast til að hætt verði við? Smitum fjölgar í Evrópu fremur en hitt þessa dagana. Um leið og svo er, þá er vaxandi hætta á að fleiri smit greinist innan félagsliðanna sem síðan getur borist áfram til landsliðanna og fækkað þeim kostum sem fyrir hendi eru innan þeirra.“

Bíður eftir markverði

„Af mínum leikmönnum er markvörðurinn Silja Solberg smituð og er í einangrun. Hún fer aftur í skimun á þriðjudaginn og þá kemur í ljós hvort hún er enn smitandi eða orðin neikvæð. Gangi allt vel hjá Silju þá getur hún komið til móts við okkur áður en mótið hefst. En þá þarf líka að ganga vel sem það hefur reyndar gert til þessa. Hún er hraust og hefur sem betur fer ekki haft alvarleg einkenni veirunnar,” sagði Þórir og bætir við að ekki sleppi allir vel frá veirunni.

Hversu lengi gengur það?

„Á síðustu mánuðum hafa flestir leikmenn sem ég þekki nánast einangrað sig frá daglegu lífi til þess að halda sér ferskum og getað stundað æfingar og keppni. Leikmenn ungverska liðsins Györ, sem hefur norskum landsliðskonum á að skipa, hafa farið þrisvar sinnum í vikulanga einangrun, síðan tímabilið hófst, frá æfingum og keppni til að koma í veg fyrir frekari smit. Hvaða áhrif hefur það svo á leikmenn að verða að hætta æfingum og keppni annað slagið. Hversu lengi gengur það?” sagði Þórir Hergeirsson, lansliðsþjálfari Noregs í samtali við handbolta.is í dag.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -