- Auglýsing -
- Auglýsing -

Hverfandi líkur á að Ísland verði heimsmeistari

Íslenska landsliðið í handknattleik hefur keppni á HM annað kvöld. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Óhætt er að segja að líkurnar séu ekki miklar á að íslenska landsliðið í handknattleik komi heim með gullverðlaunin í lok þessa mánaðar þegar rýnt er í niðurstöðu útreikninga Peter O‘Donoghue, prófessors við íþróttafræðideild Háskólans í Reykjavík, HR. Líkurnar á að Ísland verði heimsmeistari eru 0,4%. Frá þessu er greint á Facebook síðu HR en jafnframt tekið fram að spáin hafi fyrst og síðast verið til gamans gerð.

Helmingslíkur með öðrum en Dönum og Svíum

Haft er eftir O‘Donoghue að mótið sé galopið en mestar líkur þó á að að Danir verji heimsmeistaratitilinn og brjóti þar með blað verði fyrstir til þess vinna heimsmeistaratitilinn þrisvar í röð. Líkurnar á dönskum sigri eru 29%. Næst á eftir koma Svíar en 21% líkur eru á sigri þeirra. Þar af leiðir eru helmingslíkur á að einhver önnur þjóð en Danir eða Svíar verði heimsmeistarar í handknattleik karla 29. janúar.

Leikjadagskrá HM.

„Hvað Ísland varðar eru, eins og áður segir, ekki miklar líkur á að við verðum heimsmeistarar eða aðeins 0,4 prósent. Íslenska liðið hefur, samkvæmt líkaninu, um tuttugu prósent líkur á að komast í átta liða úrslit, sex prósent líkur á að ná inn í undanúrslit og 1,7 prósent líkur á að keppa til úrslita. Hins vegar eru tvö prósent líkur á að Ísland endi í fjórða sæti síns riðils og keppi þar með um 25. – 32. sæti,“ segir í frétt HR um niðurstöður spár O‘Donoghue.

Bærilegar líkur á 8-liða úrslitum

Líkurnar á að Ísland leiki til úrslita á HM eru 1,7% og 5,8% líkur eru fyrir að íslenska landsliðið komist í undanúrslit. Nærri 20% möguleiki er á að Ísland nái inn í átta liða úrslit og gæti þar með náð sæti í forkeppni næstu Ólympíuleika.

Spilaði mótið 100 þúsund sinnum

Módel O‘Donoghue byggir á frammistöðu liða síðastliðinna tveggja ára og tekið er tillit til styrkleikamunar milli heimsálfa. Út frá þeim forsendum var sett af stað hermun sem tekur tillit til mótafyrirkomulags HM. Tölva var látin spila mótið 100.000 sinnum og út frá því var hægt að sjá líkur á í hvaða sæti hver þjóð lendir.


Eins og áður segir var þetta fyrst og fremst til gamans gert enda margir fullir eftirvæntingar nú þegar styttist í fyrsta leik íslenska landsliðsins á mótinu sem verður annað kvöld gegn landsliði Portúgal.


Hægt er að kynna sér spá Peter O‘Donoghue og rýna í töflur þeim tengdum á hlekknum hér fyrir neðan.

D-riðill (Kristianstad)
12. janúar:
Ungverjaland – Suður Kórea, kl. 17.
Ísland – Portúgal, kl. 19.30.
14. janúar:
Portúgal – Suður Kórea, kl. 17.
Ísland – Ungverjaland, kl. 19.30.
16. janúar:
Suður Kórea – Ísland, kl. 17.
Portúgal – Ungverjaland, kl. 19.30.

Leikjadagskrá HM – smellið hér.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -