- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Hverjar eru konurnar 18 í fyrsta HM-hópnum í 12 ár?

Íslenska landsliðið sem lék við Pólverja á Posten Cup á fimmtudaginn í Hamri. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -

Íslenska landsliðið í handknattleik hefur keppni á HM kvenna á morgun fimmtudag í Stafangri í Noregi. Ísland er í fyrsta inn með á HM kvenna í 12 ár og aðeins í annað sinn í sögunni.

Átján leikmenn voru valdir til þátttöku á mótinu. Hér fyrir neðan er reynt að varpa örlítlu ljósi á konurnar 18 sem verða í eldínunni næstu daga. Fyrsti leikur Íslands verður á við Slóvena á morgun. Flautað verður til leiks klukkan 17.


Elín Jóna Þorsteinsdóttir, EH Aalborg, markvörður, 48 landsleikir – 1 mark.

Elín Jóna verður 27 ára gömul á morgun, fimmtudaginn 30. nóvember, þegar hún stendur í marki íslenska landsliðsins í fyrsta skiptið á heimsmeistaramóti. Ekki amalegt þegar draumar rætast á afmælisdaginn. Elín Jóna vakti ung athygli sem markvörður Gróttu en skipti fljótt yfir til Hauka og lék með Hafnarfjarðarliðinu þar til hún gekk til liðs við Vendsyssel í Damörku. Eftir þriggja ára veru þar skipti Elín Jóna yfir til Ringkøbing sumarið 2021 og þaðan til EH Aalborg fyrir yfirstandandi leiktíð.

Hafdís Renötudóttir, Val, markvörður, 49 landsleikir – 2 mörk.

Hafdís er 26 ára gömul en hefur engu að síður verið lengi á meðal allra bestu markvarða. Hún byrjaði að leika með meistaraflokki Fram vel innan við tvítugt en skipti 19 ára yfir í raðir Stjörnunnar í Garðabæ. Eftir dvöl hjá Stjörnunni hleypti hún heimdraganaum og lék með SönderjyskE í Danmörku og Boden í Svíþjóð. Hafdís kom heim á ný 2019 en samdi við Lugi í Svíþjóð ári síðar. Dvölin ytra varð stutt vegna höfuðhöggs. Hafdís gekk á ný til liðs við Fram og varð m.a. Íslandsmeistari vorið 2022. Í sumar færði Hafdís sig á milli Reykjavíkurfélaga og leikur nú með Val.

Berglind Þorsteinsdóttir, Fram, varnarmaður, 15 landsleikir – 5 mörk.

Berglind er 24 ára gömul og hefur fyrst og fremst beitt sér í vörninni þótt hún hafi einnig leikið með í sókninni. Berglind er uppalin í HK en ákvað í sumar að ganga til liðs við Fram eftir að HK féll úr Olísdeildinn. Meiðsli í hné settu strik í reikning Berglindar á síðasta keppnistímabili og lék hún lítið með af þeim sökum og nær ekkert með landsliðinu eftir að hafa komið sterk inn í hópinn haustið 2021 í undankeppni EM.

Andrea Jacobsen, Silkeborg-Voel, vinstri skytta, 44 landsleikir – 69 mörk.

Andrea er 25 ára gömul síðan í byrjun apríl á þessu ári. Hún er eini leikmaður íslenska landsliðsins sem leikur í dönsku úrvalsdeildinni en Andrea gekk óvænt til liðs við Silkeborg-Voel í sumar. Aðeins fáeinum vikum áður hafði hún endurnýjað samning sinn við EH Aalborg sem leikur í deildinni fyrir neðan. Andrea vakti fyrsta athygli með Fjölni þar sem handknattleiksferill hennar hófst. Hún flutti til Kristianstad í Svíþjóð sumar 2018 og lék samnefndu liði í fjögur ár í sænsku úrvalsdeildinni en flutti til Jótlands sumarið 2022.

Þórey Rósa Stefánsdóttir, Fram, hægra horn, 126 landsleikir – 366 mörk.

Þórey Rósa varð 34 ára gömul í ágúst. Hún er leikreyndasta landsliðkona hópsins og sú eina úr liðinu í dag sem var með síðast þegar Ísland gat sent lið til leiks á HM fyrir 12 árum. Þórey Rósa er þess utan fjórða landsleikjahæsti leikmaður landsliðsins frá upphafi. Hún hefur aldrei leikið fyrir annað lið en Fram heima á Íslandi. Þórey Rósa lék um árabil utan Íslands, m.a. í Hollandi, Þýskalandi, Danmörku og Noregi hvar hún lék síðast með Vipers Kristansand áður en hún flutti heim fyrir sex árum. Þórey Rósa varð Evrópubikarmeistari með Team Tvis Holstebro 2013. Þórey Rósa er ein fjögurra mæðra í landsliðinu í HM-hópnum. Hún á dreng og stúlku með unnusta sínum Einari Inga Hrafnssyni.

Þórey Anna Ásgeirsdóttir, Val, hægra horn/hægri skytta, 36 landsleikir – 30 mörk

Þórey Anna Ásgeirsdóttir er 26 ára gömul. Hún hefur síðustu ár leikið með Val og þá oftast í hægra horni en einnig í hægri skyttustöðunni. Þórey Anna sló ung í gegn með FH þegar hún um fermingu var samherji móður sinnar. Gunnar Sveinsdóttur. Snemma fór Þórey Anna út til Noregs og stundaði handknattleik samhliða námi í framhaldsskóla. Eftir heimkomu lék Þórey Anna með Stjörnunni og Gróttu og síðan Val. Hún var valin besti leikmaður úrslitakeppni Olísdeildar í vor. Þórey Anna á barn sem er um tveggja ára gamalt.

Perla Ruth Albertsdóttir, Selfossi, vinstra horn/lína, 37 landsleikir – 57 mörk

Perla Rut Albertsdóttir er 27 ára gömul. Hún sló fyrst í gegn sem línu- og hornamaður með Selfossi. Hún ólst upp í Hrútafirði og er ein 10 systkina. Perla Ruth fór á fullt að æfa handbolta á Selfoss komin á unglingsár. Hún gekk til liðs við Fram 2019 þegar Selfoss féll úr Olísdeildinni. Perla Ruth skilaði sér „heim“ í sumar og hefur farið fyrir Selfossliðinu sem hefur það markmið að endurheimta sæti í Olísdeildinni, sæti sem liðinu gekk úr greipum í vor. Perla á eitt barn.

Lilja Ágústsdóttir, Val, vinstra horn, 13 landsleikir – 6 mörk

Lilja er 19 ára gömul og leikur með Val og kann best við sig í vinstra horni. Lilja hefur lengst af leikið með Val en einnig var hún hluta úr leiktímabilinu 2021/2022 hjá sænska úrvalsdeildarliðinu Lugi í Lundi. Lilja hefur á síðustu árum verið ein kjölfesta 17, 18 og 19 ára landsliða kvenna sem sannarlega hefur gert það gott á Evrópu- og heimsmeistaramótum. Lilja hefur ekki langt að sækja hæfileikana því foreldrarnir, Sigríður Jónsdóttir og Ágúst Þór Jóhannsson, voru liðtæk í handknatteik á yngri árum auk þess að vera afbragðsþjálfarar.

Elísa Elíasdóttir, ÍBV, 7 landsleikir, 3 mörk

Elísa er 19 ára gömul eins og Lilja sem getið er um að ofan. Saman hafa þær leikið með yngri landsliðum íslenska landsliðsins gert hafa það gott undanfarin ár. Elísa er hinsvegar andstæðingur Lilju á heimavelli verandi leikmaður bikarmeistara ÍBV. Elísa var aðeins 17 ára þegar hún lék fyrst með landsliðinu haustið 2021 Hún leikur á línu en er einnig vaxandi varnarmaður. Móðir Elísu, Ingibjörg Jónsdóttir, var árum saman burðarás í sterku liði ÍBV í upphafi aldarinnar.

Jóhanna Margrét Sigurðardóttir, Skara HF, vinstri skytta, 7 landsleikir – 8 mörk

Jóhanna Margrét varð 21 árs gömul 12. júní í sumar. Hún er uppalin í HK og lék upp yngri flokka og upp í meistaraflokk. Einnig æfði hún í Noregi sem táningur. Vorið 2022 varð Jóhanna Margrét markadrottning Olísdeildar kvenna. Eftir það gekk hún til liðs við Önnereds í Gautaborg en staldraði stutt við og var orðin leikmaður Skara HF í sænsku úrvalsdeildinni síðla á síðasta ári. Eins og fleiri í liðinu lék Jóhanna Margrét með yngri landsliðum Íslands m.a. með U19 ára landsliðinu á EM-B-liða sumarið 2021 en úr því liði er m.a. í landsliðinu í dag Katrín Tinna Jensdóttir samherji Jóhönnu hjá Skara. Til fróðleiks má geta að amma Jóhönnu er Jóhanna Sigurðardóttir fyrrverandi forsætisráðherra.

Hildigunnur Einarsdóttir, Val, línukona og varnarmaður, 98 landsleikir – 112 mörk

Hildigunnur er eina af reyndari leikmönnum landsliðsins að þessu sinni. Hún er 35 gömul lögreglukona og fyrrverandi atvinnukona í handknattleik um árabil. Hildigunnur lék með Fram og Val hér heima áður en hún breytti til og lék í Noregi, Svíþjóð, Austurríki og í Þýskalandi um árabil við góðan orðstír. Hildigunnur flutti heim til Íslands fyrir rúmum tveimur árum gekk þá til liðs við Val og hefur síðan leikið stórt hlutverk hjá liðinu. Hildigunnur meiddist skömmu fyrir HM 2011 og gat ekki gefið kost á sér. Systir hennar, Sunneva, var annar tveggja markvarða Íslands á HM fyrir 12 árum.

Sandra Erlingsdóttir, TuS Metzingen, leikstjórnandi, 25 landsleikir – 111 mörk

Sandra er 25 ára gömul og er svo sannarlega handbolti í blóð borin. Hún er dóttir hjónanna Vigdísar Sigurðardóttir landsliðsmarkvarðar og leikmanns ÍBV og Hauka og Erlings Richardssonar handknattleiksmanns úr Eyjum, landsliðsmanns og þjálfara bæði utan og innan Íslands. Snemma beygðist krókurinn hjá Söndru sem leikið hefur handbolta með ÍBV og Val, einnig í Austurríki sem táningur og síðan í Berlín meðan faðir hennar starfaði þar. Sandra lék upp yngri landslið Íslands og var m.a. með Andreu Jakobsen og Berglindi Þorsteinsdóttur í landsliðinu á HM 19 ára landsliða sumarið 2018. Síðustu fjögur ár hefur Sandra leikið í Danmörku og síðar í Þýskalandi með hjá TuS Metzingen í suður hluta landsins og lék m.a. með liðinu í undanúrslitum þýsku bikarkeppninnar á síðasta tímabili.

Elín Rósa Magnúsdóttir, Val, leikstjórnandi, 8 landsleikir – 13 mörk.

Elín Rósa er 21 árs gömul. Hún hefur verið í vaxandi hlutverki hjá Íslandsmeisturum Vals á síðustu árum árum. Eldsnögg og útsjónarsöm. Uppruni Elínar Rósu í handboltanum er þó ekki hjá Val. Hún sprottin upp úr handboltastarfi Fylkis í Árbæ. Elín Rósa lék fyrst með B-landsliðinu á æfingamóti Tékklandi fyrir tveimur árum. Eftir það var hún lítt með landsliðinu þrátt fyrir að vera áberandi í leik Vals. Elín Rósa kom aftur inn í landsliðið í haust.

Thea Imani Sturludóttir, Val, hægri skytta, 67 landsleikir – 131 mark.

Thea Imani er 26 ára gömul og á einnig taugar ti Fylkis í Árbæ eins og stalla hennar Elín Rósa sem getið er um að ofan. Thea vakti ungt athygli fyrir leikni sína og skotvissu á handboltavellinum. Af því leiddi að hún reyndi fyrir sér utan landssteina Íslands og var um árabil í Noregi og síðar í Danmörku. Henni leiddist þófið ytra og kom heim í ársbyrjun 2021 og gekk til liðs við Val. Síðan hefur Thea verið ein öflugasti leikmaður Vals og Olísdeildar, hörkuskytta og útsjónarsöm. Á sama tíma hefur hlutverk Theu Imani með landsliðinu vaxið jafnt og þetta.

Sunna Jónsdóttir, ÍBV, varnarkona en getur einnig leikið skytta, 79 landsleikir – 60 mörk.

Sunna er 34 ára gömul og er a.m.k. þriða tenging núverandi landsliðhóps við Fylki á Árbæ en hjá því félagið vakti Sunna fyrst alvöru athygli hjá liði félagsins m.a. komst í úrslit bikarkeppninnar fyrir a.m.k. 15 árum. Sunna er einni leikmaður landsliðsins í dag sem var með á fyrsta stórmótinu sem íslenska landsliðið tók þátt í, EM 2010 sem fram fór í Danmörku. Sunna tók þátt í öllum leikjunum og skoraði tvö mörk í síðustu viðureign Íslands á mótinu, gegn Rússum, 21:30 tap. Eftir að hafa leikið með Fram í nokkur ár hélt Sunna utan 2013 og lék um árabil í Noregi og Svíþjóð eða allt þar til hún fluti heim fyrir fjórum árum. Sunna er fjórða móðirin í íslenska HM-hópnum og þekkt baráttukona innan vallar sem stendur meðan stætt er.

Díana Dögg Magnúsdóttir, BSV Sachsen Zwickau, hægri skytta, 43 landsleikir – 54 mörk

Díana Dögg er þriðja borna og barnfædda Eyjakonan í íslenska landsliðinu. Hún er 26 ára gömul hefur leikið með þýska liðinu BSV Sachsen Zwickau frá sumrinu 2020. Hún ákvað að elta drauminn eins og Díana sagði í samtali við handbolta.is daginn sem vefurinn opnaði í 3. september 2020. Áður lék Díana Dögg með Val í nokkur ár en þar á áður með ÍBV. Hún þótti ekki síður líðtæk í fótbolta en ákvað að veðja á handboltann. Díana Dögg er fyrirliði BSV Sachsen Zwickau sem leikur í efstu deild þýsku 1. deildarinnar. Samhliða handboltanum leggur hún stund á meistaranám í flugvélaverkfræði en þegar því námi verður lokið hefur hún ekki færri en þrennar gráður í verkfræði. Einnig hefur Díana Dögg unnið á verkfræðistofu í Þýskalandi með námi og handbolta.

Katrín Tinna Jensdóttir, Skara HF, línu- og varnarkona, 6 landsleikir – 1 mark.

Katrín Tinna 21 árs gömul. Hún hefur verið lítt áberandi í hanboltanum hér heima síðustu árin enda leikið í Noregi og í Svíþjóð síðustu þrjú ár, eða síðan norska landsliðið Volda samdi við hana sumarið 2021 eftir Evrópumót B-landsliða 19 ára og yngri en Katrín Tinna lék stórt hlutverk í landsliðinu á mótinu. Til Volda kom Katrín Tinna frá Stjörnunni. Eftir að hafa leikið í norsku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð og í þeirri sænsku í vetur er sennilegt að hlutverk Katrínar Tinnu eigi eftir vaxa með landsliðinu, ekki síst sem varnarmaður.

Katla María Magnúsdóttir, Selfossi HF, vinstri skytta, 3 landsleikir – ekkert mark.

Katla María Magnúsdóttir er 22 ára gömul og sló sannarlega í gegn í Olísdeildinni á síðustu leiktíð. Hún fór á kostum og var lengi vel markahæst eða allt þar til að annar borinn og barnfæddur Selfyssingur en leikmaður annars liðs, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir, stakk sér fram úr. Eftir veru hjá Stjörnunni í tvö ár skipti Katla María aftur heim í Selfoss sumarið 2022 og hefur svo sannarlega blómstrað. Hún hefur leikið burðarhlutverk í sókninni og sannarlega komið mörgum á óvart í framhaldið af fáum tækifærum með Stjörnunni. Katla María hefur verið í æfingahópum landsliðsins á þessu ári en lék ekki sína fyrstu landsleiki fyrr en á dögunum á Posten Cup æfingamótinu í Noregi. Hún kom óvænt inn í hópinn daginn áður en haldið var til Noregs eftir að Elín Klara Þorkelsdóttir úr Haukum heltist úr lestinni vegna meiðsla.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -