- Auglýsing -
- Auglýsing -

Í undanúrslit í tíunda sinn – aldrei unnið keppnina

Leikmenn Veszprém fagna sæti í undanúrslitum Meistaradeildarinnar í Álaborg í kvöld. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Ungverska liðið Veszprém varð í kvöld þriðja liðið í sögunni til þess að komast í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu í handknattleik karla. Þrátt fyrir tveggja marka tap fyrir Aalborg Håndbold í Álaborg í síðari leik liðanna, 37:35, þá heldur ungverska liðið áfram keppni en það vann fyrri viðureignina á heimavelli með sjö marka mun, 36:29.


Veszprém hefur aldrei unnið Meistaradeild Evrópu þrátt fyrir að hafa níu sinnum áður komist í undanúrslit. Hin tvö liðin sem hafa oftar en tíu sinnum náð svo langt í keppninni, Barcelona og Kiel, hafa á hinn bóginn oftar en einu sinni staðið uppi sem sigurvegarar.


Barcelona hefur í sautján skipti náð svo langt og Kiel fimmtán sinnum. Bæði geta þau bætt við áfangana á morgun þegar þau mæta andstæðingum sínum öðru sinni í átta liða úrslitum.


Verkefni Aalborg var erfitt í kvöld á heimavelli eftir sjö marka tap í Ungverjalandi í síðustu viku. Þess utan voru nokkri leikmenn á sjúkralista, Lukas Sandell, Benjamin Jakobsen, Jesper Nielsen, Sebastian Barthold, Martin Larsen og Sebastian Henneberg. Til viðbótar meiddist Aron Pálmarsson í upphitun.


Leikmenn Aalborg reyndu hvað þeir gátu vel studdir af ríflega 5.000 áhorfendum en uppselt var á leikinn fyrir tveimur vikum. Veszprém var marki yfir í hálfleik, 21:20, og hleypti leikmönnum Aalborg aldrei langt fram úr sér í kvöld.

Kristian Björnsen og Buster Juul voru markahæstir hjá Aalborg með níu mörk hvor.


Daninn Rasmus Lauge og Frakkinn Kentin Mahe voru iðnastir við kolann þegar kom að því að skora mörk fyrir Veszprém. Þeir skoruðu hvor um sig sex sinnum.
Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari Aalborg Håndbold. Liðið komst á síðasta ári í undanúrslit Meistaradeildarinnar.


Úrslitahelgi Meistaradeildar Evrópu fer fram í Köln 18. og 19. júní. Veszprém er fyrsta liðið sem tryggir sér sæti í undanúrslitum. Síðar í kvöld eigast við Vive Kielce og Montpellier öðru sinni í átta liða úrslitum.

Annað kvöld eigast Barcelona og Flensburg við og Kiel og PSG.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -