- Auglýsing -
- Auglýsing -

ÍR í fínum málum – lífróður KA/Þórs heldur áfram

Sólveig Lára Kjærnested þjálfari ÍR. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

ÍR-ingar eru áfram í góðum málum í Olísdeild kvenna eftir að hafa unnið áttunda leik sinn í Olísdeild kvenna í handknattleik í Skógarseli í kvöld. ÍR lagði neðsta lið deildarinnar, KA/Þór, 22:17, eftir að hafa verið sex mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 12:6.

Á sama tíma og ÍR færðist upp að hlið ÍBV í fjórða til fimmta sæti þá þurfa leikmenn KA/Þórs að herða enn frekar lífróðurinn fyrir áframhaldandi tilverurétti sínum í deildinni. Liðið rekur lestina með fimm stig en á fyrir höndum leiki gegn Stjörnunni og Aftureldingu á endasprettinum. Liðum sem eru á líkum slóðum í deildinni. Aðeins eru fjórar umferðir eftir óleiknar.

ÍR hafði tögl og hagldir lengst af leiksins í dag. Hinsvegar datt allur botn úr sóknarleik liðsins síðustu 20 mínúturnar, eða eftir að staðan var 20:11. Leit út fyrir að liðið ætlaði ekki að bæta við fleiri mörkum. KA/Þór tókst ekki að færa sér stífluna í sóknarleik ÍR sér í nyt að nokkru marki. Kom þar til nokkuð af tæknifeilum og eins góður leikur Hildar Öder Einarsdóttur markvarðar ÍR.

Martha hefur tekið fram skóna

Allar hendur eru komnar á dekk hjá KA/Þór. Martha Hermannsdóttir hefur tekið fram skóna. Hún lék sinn fyrsta leik með KA/Þórsliðinu í dag, nærri tveimur árum eftir að hún lék sinn síðasta með liðinu.

Hulda Bryndís Tryggvadóttir, sem lék í kvöld sinn fyrsta leik með KA/Þór eftir barnsburð, fékk þung högg á annað hnéð síðla leiks. Hún sagði við handbolta.is að vonir hennar stæðu til að höggið drægi ekki dilk á eftir sér.

Rakel Sara Elvarsdóttir er og verður áfram úr leik en hún er með slitið krossband.

Staðan í Olísdeildum og næstu leikir.


Mörk ÍR: Karen Tinna Demian 8/5, Matthildur Lilja Jónsdóttir 4, Ásthildur Bertha Bjarkadóttir 3, Hildur Öder Einarsdóttir 2, Sylvía Sigríður Jónsdóttir 2, Hanna Karen Ólafsdóttir 2, Sigrún Ása Ásgrímsdóttir 1.
Varin skot: Hildur Öder Einarsdóttir 14/2, 45,2%.

Mörk KA/Þórs: Anna Þyrí Halldórsdóttir 3, Martha Hermannsdóttir 3/2, Nathalia Soares Baliana 3, Lydía Gunnþórsdóttir 2, Rafaele Nascimento Fraga 2, Telma Lísa Elmarsdóttir 1, Bergrós Ásta Guðmundsdóttir 1, Hildur Magnea Valgeirsdóttir 1, Isabella Fraga 1.
Varin skot: Matea Lonac 9, 30%.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -