Ísak Steinsson unglingalandsliðsmarkvörður og félagar hans í Drammen fóru vel af stað í norsku úrvalsdeildinni í handknattleik í dag þear þeir unnu Fjellhammer á heimavelli, 27:23. Staðan var 13:12 að loknum fyrri hálfleik í Drammenshallen.
Ísak stóð á milli stanganna í marki Drammen svo að segja allan leikinn og varði 10 skot, þar af var eitt vítakast, 30%. Þetta var fyrsti leikur Ísaks með Drammen í úrvalsdeildinni eftir að hann samdi við það til þriggja ára í sumar.
Drammen hefur á að skipa yngsta markvarðapari úrvalsdeildarinnar. Ísak var markvörður 20 ára landsliðs Íslands á EM í sumar og Oscar Larsen Syvertsen markvörður 20 ára landsliðs Noregs á sama móti. Syvertsen varði eitt víkast í leiknum.
Viktor Petersen Norberg, er hálf-íslenskur eins og Ísak. Hann skoraði tvö mörk fyrir Drammen í leiknum í dag.