- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ísland í þriðja flokki þegar dregið verður í EM-riðla

Á morgun kemur í ljós hvaða þjóðum íslenska landsliðið mætir í undankeppni EM 2022. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Í fyrramálið verður dregið í riðla í undankeppni Evrópumóts kvenna sem hefst í haust og lýkur vorið 2022. Ísland verður í þriðja styrkleikaflokki af fjórum. Dregið verður í sex fjögurra liða riðla og komast tvær efstu þjóðir hvers riðils áfram í lokakeppnina að undankeppninni lokinni vorið 2022. Fyrstu tvær umferðir riðlakeppninnar fara fram í byrjun október en þriðja og fjórða umferðin í mars og apríl á næsta ári.


Lokakeppnin fer fram í nóvember 2022 í Slóveníu, Norður-Makedóníu og Svartfjallalandi. Af þeim sökum verða nöfn þessar þriggja þjóða ekki í skálunum sem dregið verður úr á morgun. Einnig komast Evrópumeistarar Noregs hjá því að taka þátt í undankeppninni.

Forðast nágrannaerjur

Styrkleikaröðun fyrir dráttinn í fyrramálið hefur verið gefin út. Eitt lið verður dregið út úr hverjum flokki í hvern riðil. Byrjað verður á þriðja og fjórða flokki. Eftir það verða Serbar dregnir út til að koma í veg fyrir að þeir dragist á móti Kósóvó, ef Kósóvó vinnur sinn riðil í forkeppninni. Því næst verða aðrar þjóðir úr öðrum flokki dregnar áður en röðin kemur að fyrsta flokki. Rússar verða dregnir sérstaklega út til að komist verði hjá að þeir og Úkraínumenn hafni í sama riðli en afar takmörkuð samskipti eru á milli grannríkjanna.

Styrkleikaflokkar

1.flokkur: Holland, Rússland, Frakland, Danmörk, Spánn, Svíþjóð.
2.flokkur: Þýskaland, Rúmenía, Serbía, Ungverjaland, Króatía, Pólland.
3.flokkur: Tékkland, Austurríki, Hvíta-Rússland, Sviss, Slóvakía, Ísland.
4.flokkur: Tyrkland, Litháen, Úkraína, forkeppni 1, forkeppni 2, forkeppni 3.

Forkeppni framundan

Forkeppnin fer fram 31. maí til 6. júní nk. og fer ein þjóð áfram í hverjum riðli. Dregið var í riðla á dögunum og var niðurstaðan þessi:
1.riðill: Portúgal, Kósóvó, Lúxemborg, Kýpur.
2.riðill: Grikkland, Ítalía, Bosnía, Lettland.
3.riðill: Færeyjar, Ísrael, Finnland.


Íslenska landsliðið var í riðli með Frökkum, Króötum og Tyrkjum í riðlakeppni EM 2020. Undankeppninni var hætt í miðjum klíðum vegna kórónuveirunnar. Frakkland og Króatía stóðu þá best að vígi og tóku þátt í lokakeppninni í desember sl. Frakkar fóru heim með silfurverðlaun frá mótinu en Króatar bronsverðlaun.


Ísland hefur tvisvar verður með í lokakeppni EM kvenna, 2010 og 2012.


EM kvenna 2022 verður síðasta mótið með 16 þátttökuþjóðum. Þeim verður fjölgað í 24 til samræmis við lokamót karla frá og með EM 2024 sem fram fer í Austurríki, Sviss og Ungverjalandi.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -