- Auglýsing -
- Auglýsing -

Íslandsbikarinn blasir við Eyjamönnum

Kátt var á hjalla hjá stuðningsmönnum ÍBV á Ásvöllum í kvöld og vafalaust verða þeir einn kátari á föstudagskvöldið á heimavelli. Mynd/J.L.Long

Íslandsbikarinn í handknattleik karla blasir við leikmönnum ÍBV eftir að þeir lögðu Hauka í annað sinn í úrslitum Íslandsmótsins á Ásvöllum í kvöld, 29:26. Haukar eru án vinnings meðan leikmenn ÍBV eru með tvo og skortir aðeins einn til viðbótar.

Eftir það sem á undan er gengið í leikjum liðanna síðustu daga bendir fátt til annars en að leikmenn ÍBV tryggi sér Íslandsmeistaratitilinn á heimavelli á föstudagskvöld. Það verður þá í fyrsta sinn sem karlalið ÍBV tekur við Íslandsbikarnum á heimavelli og því um sögulega stund að ræða.

ÍBV var með tveggja marka forskot, 13:11, eftir kaflaskiptan fyrri hálfleik. Eins var nokkuð um kaflaskiptingar í síðari hálfleik en þegar á leið var ljóst að Eyjamenn voru sterkari. Þeir voru ekki lengi að komast yfir aftur eftir að Haukar komust um stund marki yfir.

Þrátt fyrir að sóknarleikur ÍBV væri ekki upp á sitt besta þá hafði liðið innan sinna vébanda Rúnar Kárason sem gat þegar honum lysti höggvið á hnútinn og skorað mörk. Alls voru þau 11 í kvöld, ekkert út vítakasti. Enn einn stórleikurinn hjá Rúnari á leiktíðinni. Theodór Sigurbjörnsson var einnig afar öflugur og eins Elmar Erlingsson sem olli miklu usla í vörn Hauka hvað eftir annað.
Varnarleikur Eyjamanna var góður og Pavel Miskevich öflugur í marki í fyrri hálfleik.

Þreyta situr í Haukum sem hafa náð lengra en flestir reiknuðu með. Ekki það að leikmenn Hauka sætti sig við þá staðreynd í kvöld. Þeir voru einfaldlega ofurliði bornir af ferskara liði sem hefur yfir fleiri vopnum að ráða um þessar mundir. Nokkrir Haukar náðu sér engan veginn á strik. Sóknarmistökin voru mörg og dýr. Varnarleikurinn var ágætur og Aron Rafn Eðvarðsson góður í markinu, ekki síst í síðari hálfleik. Ljóst er að mikið þarf að breytast til þess að Hauka spilli partýinu í Eyjum á föstudagskvöldið.

Mörk Hauka: Stefán Rafn Sigurmannsson 9/5, Brynjólfur Snær Brynjólfsson 5, Heimir Óli Heimisson 3, Geir Guðmundsson 2, Ólafur Ægir Ólafsson 2, Adam Haukur Baumruk 1, Andri Már Rúnarsson 1, Þráinn Orri Jónsson 1, Tjörvi Þorgeirsson 1, Guðmundur Bragi Ástþórsson 1.
Varin skot: Aron Rafn Eðvarðsson 12, 29,3%.
Mörk ÍBV: Rúnar Kárason 11, Theodór Sigurbjörnsson 6, Elmar Erlingsson 4/1, Arnór Viðarsson 2, Dagur Arnarsson 1, Janus Dam Djurhuus 1, Dánjal Ragnarsson 1, Sigtryggur Daði Rúnarsson 1, Sveinn Jose Rivera 1, Gabríel Martinez Róbertsson 1.
Varin skot: Pavel Miskevich 8, 28,6% – Petar Jokanovic 1, 14,3%.

Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -