- Auglýsing -
- Auglýsing -

Íslandsmeistarar krýndir rétt fyrir verslunarmannahelgi?

Útlit er fyrir að Íslandsmótinu í handknattleik ljúki ekki að óbreyttu fyrr en í lok júlí. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

Verði haldið óbreyttri áætlun í Olísdeild karla í handknattleik eftir að þráðurinn verður tekinn upp eftir miðjan apríl reiknar Handknattleikssamband Íslands með að keppni í Olísdeild karla verði ekki lokið fyrr en komið verði nærri heyönnum eða 24. júlí, viku fyrir verslunarmannahelgi. Þetta kemur fram í pósti sem HSÍ sendi til aðildarfélaganna í vikunni og handbolti.is hefur undir höndum.


Inni í þessum forsendum er gert ráð fyrir að hægt verði að hefja keppni fljótlega eftir miðjan apríl. Hlé verði gert vegna alþjóðlegra landsliðsvikna í lok apríl og í júní hjá körlunum. Einnig liggur fyrir að keppni hefst ekki aftur í Olísdeild kvenna fyrr en síðla í apríl vegna umspilsleikja við Slóvena 16. og 21. apríl til viðbótar við sóttkvíarveru leikmanna. Til viðbótar er einnig alþjóðleg landsleikjavika í júní hjá konunum eins og hjá körlum.

Engin vissa

Í forsendum HSÍ er miðað við að keppni geti hafist fljótlega eftir að létt verður á samkomutakmörkunum eftir 15. apríl. Engin trygging er fyrir að svo verði og ráðstafanir þá verði þær sömu og þremur vikum fyrr.

Lokið 2. júlí

Nær öll keppni í Coca Cola-bikarkeppni HSÍ er eftir ofan í annað.
Að óbreyttri áætlun gerir HSÍ ráð fyrir að keppni í Olísdeild kvenna og úrslitakeppni ljúki 2. júlí og að öll kurl verði komin til grafar í Grill 66-deild kvenna 23. júní og viku síðar í Grill 66-deild karla. Hægt er að ljúka keppni í Grill 66-deildunum um það bil hálfum mánuði fyrr ef leikið verður í landsleikjavikunum í júní.

Fara þarf yfir stöðuna

Telur HSÍ ljóst að fara verði vel yfir stöðu mála og hvernig og hvenær verði hægt að ljúka mótinu. Slíkt verður ekki mögulegt með góðu móti fyrr en víst er hvenær hægt verður að hefja æfingar á nýjan leik af fullum krafti. Hætt er við að ný reglugerð heilbrigðisráðuneytisins liggi ekki fyrir fyrr en nær dregur miðjum apríl.


Eins og kom fram á handbolta.is í gær þá synjaði heilbrigðisráðuneytið fyrr í vikunni HSÍ og fleiri sérsamböndum ÍSÍ um heimild til undanþágu til æfinga meistaraflokksliða. Áfram verða þar með lið að æfa í litlu hópum á mjög hamlandi hátt.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -