Með frábærum leik í síðari hálfleik tókst Íslendingaliðinu og nýliðum sænsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik, Karlskrona HK, að vinna óvæntan og sætan sigur á öðru af tveimur efstu liðum sænsku úrvalsdeildarinnar, Hammarby, 28:26, á heimavelli í kvöld.
Þetta var annar sigur Karlskrona í úrvalsdeildinni á leiktíðinni og um leið fyrsta tap Hammarby sem unnið hafði fjóra fyrstu leiki sína. Þar á meðal Sävehof um síðustu helgi. Hammarby var fimm mörk um yfir að loknum fyrri hálfleik, 15:10.
Dagur Sverrir Kristjánsson skoraði tvö mörk fyrir Karlskrona. Ólafur Andrés Guðmundsson sneri til baka eftir meiðsli og skoraði einnig tvö mörk. Þorgils Jón Svölu Baldursson skoraði ekki mark að þessu sinni en var væntanlega aðsópsmikill í vörninni. Ef marka má tölfræði leiksins þá sat Phil Döhler markvörður sem fastast á varamannabekknum frá upphafi til enda enda varði félagi hans, Uros Tomic vel.
Tryggvi var fjarverandi
IFK Skövde lagði Sävehof, 33:30, í Skövde í kvöld. Tryggvi Þórisson var ekki í leikmannahópi Sävehof sem tapað hefur tveimur leikjum í röð.
Stöðuna í sænsku úrvalsdeildinni í karlaflokki og í fleiri deildum Evrópu er að finna hér.