Orri Freyr Þorkelsson og liðsfélagar í portúgalska meistaraliðinu Sporting Lissabon urðu í öðru sæti í Íberubikarnum, árlegu móti í handknattleik, sem lauk í gær. Barcelona vann Sporting 38:33, í úrslitaleik keppninnar sem fram fór á Spáni að þessu sinni.
Porto, sem Þorsteinn Leó Gunnarsson gekk til liðs við í sumar frá Aftureldingu, vann spænska liðið Bathco BM Torrelavega, 30:27, í viðureign um þriðja sætið. Þorsteinn Leó skoraði fjögur mörk í leiknum.
Orri Freyr er óðum að jafna sig af ökklameiðslum sem hafa gert honum lífið leitt síðustu vikur. Hann skoraði þrisvar sinnum hjá Emil Nielsen markverði Barcelona og danska landsliðsins. Orri Freyr skoraði mörkin í síðari hálfleik.
Aleix Gómez var markahæstur hjá Barcelona með sjö mörk.
Í undanúrslitum á laugardaginn lagði Sporting liðsmenn Bathco BM Torrelavega, 30:27, og Barcelona lagði Porto, 39:31. Þorsteinn Leó skoraði einnig fjórum sinnum fyrir Porto í undanúrslitaleiknum.
Byrja á miðvikudag
Keppni í efstu deild karla í Portúgal hefst á miðvikudaginn. Orri og félagar í Sporting mæta Aguas Santas. Þorsteinn Léo og Porto-piltar sækja Benfica heim til Lissabon á laugardaginn. Stiven Tobar Valencia er leikmaður Benfica eins og á síðasta tímabili.