Eftir sannkallaðan maraþonleik máttu leikmenn Kadetten Schaffhausen bíta í það súra epli að tapa fyrir HC Kriens í þriðja úrslitaleik liðanna um meistaratitilinn í handknattleik karla í Sviss í dag. Lokatölur, 50:49, fyrir Kriens og munaði þar mestu um sigur í vítakeppni, 8:7.
Kadetten er áfram með yfirhöndina í einvíginu, 2:1, í leikjum talið og getur tryggt sér meistaratitilinn á heimavelli á fimmtudaginn. Liðið var sterkara lengst af í venjulegum leiktíma. Leikmenn HC Kriens, sem eru deildarmeistarar og bikarmeistarar, náðu að kreista fram jafntefli eftir 60 mínútna leik, 29:29. Að loknum tveimur framlengingum var staðan ennþá jöfn, 42:42.
Aðalsteinn Eyjólfsson er þjálfari Kadetten Schaffhausen sem varð meistari á síðasta ári. Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði níu mörk í dag, þar af fimm úr vítaköstum. Spánverjinn Joan Cañellas skoraði 10 mörk fyrir Kadetten og Luka Maros skoraði einnig níu mörk eins og Óðinn Þór.
Andy Schmid var allt í öllu hjá HC Kriens. Hann skoraði 11 mörk. Marin Sipic var næstur með 10 mörk.