Íslendingatríóið hjá Ribe-Esbjerg fagnaði sigri í fyrsta leik sínum fyrir félagið í upphafsumferð dönsku úrvalsdeildarinnar í kvöld. Ribe-Esbjerg vann Mors-Thy með þriggja marka mun á heimavelli, 30:27, eftir að hafa verið yfir, 17:14, eftir fyrri hálfleik.
Elvar Ásgeirsson skoraði þrjú mörk fyrir Ribe-Esbjerg og átti eina stoðsendingu. Arnar Birkir Hálfdánsson skoraði ekki. Ágúst Elí Björgvinsson varði 10 skot, þar af eitt vítakast, 27%.
Áfram hrellir Poulsen markverði
Daníel Freyr Andrésson lék einnig sinn fyrsta leik í dönsku úrvalsdeildinni fyrir Lemvig í kvöld er liðið sótt SönderjyskE heim en tapaði, 33:30. Daníel Freyr kom til Lemvig í sumar frá Guif í Svíþjóð. Hann var í marki Lemvig í um helming leiktímans og varði sex skot, 25%. Færeyingurinn Vilhelm Poulsen heldur áfram að gera markvörðum lífið leitt. Hann skoraði átta mörk í níu skotum fyrir Lemvig. Poulsen kom til félagsins í sumar eftir að hafa gert það gott í tvö ár hjá Fram.
Guðmundur Þórður Guðmundsson stjórnaði Fredericia til sigurs á heimavelli gegn Skanderborg Aarhus, 24:22. Einar Þorsteinn Ólafsson er leikmaður Fredericia. Hann er meiddur á öxl eftir því sem næst verður komist.
Skjern, sem Sveinn Jóhannsson gekk til liðs við í sumar, vann stórsigur á Midtjylland á útivelli, 32:18. Sveinn er og verður frá vegna meiðsla út þennan mánuð. Meiðsla sem hann varð fyrir á æfingu íslenska landsliðsins í upphafi ársins.