- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Íslenska þríeykið hjá Ribe-Esbjerg fagnaði

Elvar Ásgeirsson leikmaður Ribe-Esbjerg. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Ribe-Esbjerg, með Arnar Birkir Hálfdánsson, Ágúst Elí Björgvinsson og Elvar Ásgeirsson innanborðs, tryggði sér í kvöld áttunda og síðasta sæti í úrslitakeppninni um danska meistaratitilinn í handknattleik. Lokaumferð dönsku úrvalsdeildarinnar fór fram í kvöld.

Ribe-Esbjerg vann Holstebro, sem Halldór Jóhann Sigfússon þjálfar, í uppgjöri liðanna um áttunda sæti í kvöld, 35:34. Leikurinn var háður í Holstebro.

Elvar skoraði sex mörk fyrir Ribe-Esbjerg og átti sjö stoðsendingar. Ágúst Elí varði fimm skot, 14%. Arnar Birkir skoraði ekki mark.


Holstebro hafnaði þar með í 10. sæti og tekur þátt í keppni fimm liða um að forðast fall úr deildinni. Midtjylland er neðst og fallið. Sønderjyske stóð best að vígi fyrir leikina í kvöld í keppninni um áttunda sæti, var stigi á undan Ribe-Esbjerg og Holstebro. Það dugði skammt því Sønderjyske steinlá á heimavelli fyrir Skanderborg Aarhus, 28:35, og verður að gera sér 9. sætið að góðu.


Glatt er á hjalla í herbúðum Ribe-Esbjerg eftir leikinn í kvöld vegna þess að nokkuð er liðið síðan liðið komst síðast í átta liða úrslit.

Aron og Arnór deildarmeistarar

Aron Pálmarsson og Arnór Atlason fögnuðu deildarmeistaratitli með Aalborg Håndbold. Liðið hlaut jafnmörg stig og GOG, 45 í 26 leikjum, en stendur betur að vígi í innbyrðisleikjum.


Fredericia Håndboldklub, undir stjórn Guðmundar Þórðar Guðmundsson, hafnaði í sjöunda sæti, fjórum stigum á undan Ribe-Esbjerg. Fredericia Håndboldklub tapaði á heimavelli í kvöld fyrir Nordsjælland, 25:24. Einar Þorsteinn Ólafsson skoraði ekki mark í fyrir Fredericia Håndboldklub í leiknum.


Daníel Freyr Andrésson markvörður og félagar hans í Lemvig töpuðu fyrir Midtjylland í kveðjuleik síðarnefnda liðsins í úrvalsdeildinni, 27:26. Lemvig er næst neðst og byrjar kjallarakeppnina án stiga.

Daníel Freyr varði 6 skot, þar af eitt vítakast, 33,3%.


Úrslitakeppnin hefst 12. apríl og fer að vanda fram í tveimur fjögurra liða riðlum. Fimm af sex neðstu liðunum leika í einum riðli í umspili.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -