Janus Daði Smárason hrósaði sigri gegn sínu fyrra liði, SC Magdeburg, þegar það kom í heimsókn til Pick í Szeged í Ungverjalandi í kvöld í 1. umferð B-riðils Meistaradeildar Evrópu í handknattleik karla, 31:29.
Janus Daði kvaddi Magdeburg eftir eins árs veru í sumar og flutti til Szeged. Hann og samherjar voru sterkari í leiknum, ekki síst var varnarleikur Szeged-liðsins öflugur og olli leikmönnum þýska liðsins hvað eftir annað erfiðleikum.
Roland Mikler markvörður Pick Szeged átti stórleik í markinu á bak við vörnina sterku. Hann varði 16 skot, 44,4%. Þó stóð hann ekki í marki Pick Szeged allan leikinn.
Janus Daði skoraði tvö mörk og gaf þrjár stoðsendingar. Mario Sostaric var markahæstur með átta mörk og Sebastian Frimmel var næstur með fimm mörk.
Ómar Ingi Magnússon var ásamt Philipp Weber markahæstur hjá Magdeburg með fimm mörk. Ómar Ingi átti eina stoðsendingu. Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði tvö mörk og gaf tvær stoðsendingar.
Haukur markahæstur
Haukur Þrastarson skoraði sex mörk og gaf þrjár stoðsendingar þegar Dinamo Búkarest fór illa með Fredericia í viðureign liðanna í Búkarest, 37:28. Þetta var fyrsti leikur danska liðsins í Evrópukeppni í 44 ár. Rúmensku meistararnir voru fjórum mörkum yfir í hálfleik, 18:14, og stigu fastar á bensíngjöfina í síðari hálfleik og náðu mest 10 marka forskoti.
Guðmundur Þórður Guðmundsson er þjálfari Fredericia HK. Einar Þorsteinn Ólafsson lék með danska liðinu og skoraði m.a. eitt mark. Arnór Viðarsson var ekki í leikmannahópnum að þessu sinni. Ef marka má leikinn í kvöld gæti verið framundan erfiður vetur hjá Fredericia HK í Meistaradeildinni, ekki síst á útivelli.
Haukur var markahæstur í fyrsta meistaradeildarleiknum fyrir rúmenska liðið. Ante Kuduz var næstur með fimm mörk. Sebastian Henneberg var markahæstur hjá Fredericia með átta mörk. Línumaðurinn Evgeni Pevnov var næstur með fjögur mörk.