- Auglýsing -

Janus Daði tognaði í nára

Janus Daði Smárason landsliðsmaður og leikmaður norska úrvalsdeildarliðsins Kolstad. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Janus Daði Smárason, landsliðsmaður í handknattleik, fór meiddur af leikvelli undir lok fyrri hálfleiks í viðureign Kolstad og Nærbø í fyrstu umferð norsku úrvalsdeildarinnar í gærkvöld. Hann kom ekkert meira við sögu í leiknum.


Haft er eftir Janusi Daða á heimasíðu Kolstad í morgun að hann hafi tognað á nára. Framundan er skoðun hjá lækni í dag þar sem staðan verður metin. Útilokað hafi verið að taka meira þátt í leiknum í gærkvöld eftir atvikið. Janus Daði hafði þá skorað þrjú mörk og átt þrjár stoðsendingar.


Eftir því sem fram kemur á heimasíðu Kolstad var Janus Daði afar harkalega stöðvaður af varnarmanni Nærbø og fór rauða spjaldið á loft. Dómararnir voru ekki betur með á nótunum en svo að þeir gáfu saklausum manni rautt spjald í hita leiksins. Þeir sáu sig um hönd eftir rekistefnu og vísuðu árasarmanninum af velli með rautt spjald en leyfðu þeim saklausa að halda áfram.


Nokkrar vikur getur tekið að jafna sig af alvarlegum nárameiðslum.


Í mörg horn er að líta hjá Kolstadmönnum þessa dagana. Næst á dagskrá er að leika við Drammen öðru sinni í fyrri umferð forkeppni Evrópudeildarinnar síðdegis á sunnudaginn í Drammenhallen. Kolstad vann fyrri leikinn með tveggja marka mun, 28:26.


- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -