Landsliðskonan í handknattleik, Jóhanna Margrét Sigurðardóttir, fer svo sannarlega vel af stað með nýju liði sínu, Önnereds HK. Jóhanna Margrét var í stóru hlutverki hjá Gautaborgarliðinu þegar það vann til gullverðlauna í flokki liða 21 árs og yngri á Partille Cup, alþjóðlega handknattleiksmótinu í Gautaborg í morgun. Önnereds vann Kärra HF með tíu marka mun í úrslitaleik, 18:8. Jóhanna Margrét lét til sína taka og skoraði nokkur mörk.
Meðal leikmanna Kärra HF í úrslitaleiknum var Lina Cardell sem síðustu tvö tímabil hefur leikið með ÍBV.
Jóhanna Margrét flutti til Gautaborgar 3. júní og hefur æft með liðinu síðasta mánuð. Hún fær stutt frí frá og með helginni en verður að vera mætt aftur út strax eftir verslunarmannahelgi þegar undirbúningur úrvalsdeildarliðsins fer á fulla ferð. Keppni í sænsku úrvalsdeildinni hefst snemma í september.
Jóhanna Margrét, sem lék með HK, samdi við Önnereds í vor og byrjar að leika með úrvalsdeildarliði félagsins í haust þegar keppnistímabilið hefst í sænsku úrvalsdeildinni.
Með sigrinum á mótinu fetar Jóhanna Margrét að nokkru leyti í spor bróður síns Kristófers Dags Sigurðssonar sem varð Partille cup meistari með HK fyrir rúmum áratug. Nokkrar myndir af sigurliði HK birtast hér fyrir neðan með góðfúslegu leyfi Sigurðar, föður Jóhönnu og Kristófers.