- Auglýsing -
- Auglýsing -

Jóna Margrét og Unnur bætast í þjálfarateymið

Þjálfarateymi kvennaliðs Selfoss sem ætlar að stýra liðinu upp úr Grill 66-deildinni í vetur, f.v.: Ketill Heiðar Hauksson, Unnur Þórisdóttir, Jóna Margrét Ragnarsdóttir og Eyþór Lárusson. Mynd/UMF Selfoss
- Auglýsing -

Þjálfarateymi meistaraflokksliðs kvenna hjá Selfoss er fullskipað fyrir átök komandi vetrar í Grill 66-deildinni. Nokkrar breytingar verða frá síðasta keppnistímabili. Jóna Margrét Ragnarsdóttir fyrrverandi landsliðskona kemur inn í teymið sem aðstoðarþjálfari ásamt Eyþóri Lárussyni þjálfara og Katli Heiðari Haukssyni sjúkraþjálfara. Tveir þeir síðarnefndu halda sínu striki frá síðustu leiktíð.

Einnig bætist Unnur Þórisdóttir við sem styrktarþjálfari. Ekki má gleyma Ingu Guðlaugu Jónsdóttur sem verður áfram liðsstjóri enda er góður liðsstjóri gulls ígildi.

Þrautreynd landsliðskona

Jóna Margrét er margreynd landsliðskona í handbolta en hún lék á sínum tíma 64 landsleiki og skoraði í þeim 119 mörk. Jóna Margrét lék allan sinn feril með Stjörnunni þar sem hún vann bæði Íslands- og bikarmeistaratitla. Kemur hún með mikla reynslu inn í teymið sem hún mun miðla til yngri leikmanna.

Unnur sér um styrkinn

Unnur Þórisdóttir kemur einnig inn í þjálfarateymið og mun halda utan um styrktarþjálfun meistaraflokks kvenna. Unnur er menntaður sjúkraþjálfari og hefur verið Katli Heiðari sjúkraþjálfara til halds og trausts síðustu ár.

Í tilkynningu lýsir handknattleiksdeild Selfoss yfir „gríðarlegri ánægju“ með samsetningu þjálfarateymis meistaraflokks kvenna og segir spennandi tíma vera framundan hjá liðinu.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -