- Auglýsing -
- Auglýsing -

KA-menn komust lítt áleiðis í Krikanum

Leikmenn FH fagna sigri í kvöld en KA-menn ganga daufir í bragði af leikvelli. Mynd/J.L.Long
- Auglýsing -

KA-menn lentu á vegg í Kaplakrika í kvöld er þeir sóttu FH-inga heim í 6. umferð Olísdeildar karla í handknattleik. Frábær vörn og framúrskarandi frammistaða Phil Döhler lagði grunn að sjö marka sigri FH-inga, 28:21. KA-liðið átti á brattann að sækja nánast frá upphafi. Sóknarleikur liðsins bilaði illilega og það ekki í fyrsta sinn á leiktíðinni.

Phil Döhler, markvörður FH, Jón Bjarni Ólafsson og Ágúst Birgisson stóðu vaktina af árverkni í kvöld og leyfðu gömlum samherja, Einari Rafni Eiðssyni ekki að komast upp með sín þrumuskot. Mynd/J.L.Long


Með sigrinum er FH komið upp í fjórða til sjöunda sæti með átta stig eins og ÍBV, Afturelding og Fram. KA er hinsvegar í áttunda sæti, fjórum stigum frá þessum liðum eftir aðeins tvo sigurleiki af sex mögulegum.


Rétt í byrjun náði KA-liðið eitthvað að halda í við FH-inga sem léku sinn fyrsta leik gegn íslensku félagsliði frá 13. okótber er þeir gjörsigruðu Víkinga í Kaplakrika. Staðan að loknum fyrri hálfleik var 12:9.

Einar Rafn Eiðsson náði sér lítt á strik í sínum fyrsta leik gegn FH eftir að hann gekk til liðs við KA. Óðinn Þór Ríkharðsson var sá eini sem náði sér eitthvað á strik í KA-liðinu. Aðrir voru daufir og vörn og markvarsla var ekki viðunandi, þá sérstaklega markvarslan.

Ásbjörn Friðriksson lék vörn KA oft grátt. Hér hefur hann snúið á Ragnar Snæ Njálsson. Mynd/J.L.Long


Ásbjörn Friðriksson var allt í öllu hjá FH. Hann skoraði átta mörk í níu skotum og skapaði þrjú marktækifæri. Hann var öryggið uppmálað á vítapunktinum. Phil Döhler markvörður fór á kostum og var með 54,5% hlutfallsmarkvörslu á bak við góða vörn FH-liðsins.

Phil Döhler þakkar Einari Rafni Eiðssyni fyrir leikinn. Mynd/J.L.Long


Mörk FH: Ásbjörn Friðriksson 8/5, Birgir Már Birgisson 4, Jón Bjarni Ólafsson 4, Leonharð Þorgeir Harðarson 3, Egill Magnússon 3, Jakob Martin Ásgeirsson 2, Atli Steinn Arnarson 1, Jóhann Birgir Ingvarsson 1, Einar Örn Sindrason 1, Ágúst Birgisson 1.
Varin skot: Phil Döhler 18, 54,5% – Svavar Ingi Sigurmundsson 2, 25%.

Mörk KA: Óðinn Þór Ríkharðsson 8/5, Einar Birgir Stefánsson 3, Einar Rafn Eiðsson 2, Jón Heiðar Sigurðsson 2, Skarphéðinn Ívar Einarsson2, Arnór Ísak Haddsson 1, Jóhann Geir Sævarsson 1, Pætur Mikkjalsson 1, Allan Norðberg 1.
Varin skot: Nicholas Satchwell 6, 20% – Bruno Bernat 1, 100%.

Öll tölfræði leiksins er hjá HBStatz.

Stöðuna og næstu leiki í Olísdeild karla má sjá hér.

Jón Heiðar Sigurðsson, KA, var ekki stöðvaður með silkihönskum er hann sótti að Ágústi Birgissyni og Jóni Bjarna Ólafssyni. Mynd/J.L.Long
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -