Ekki er öll nótt úti fyrir áhugasama handknattleiksmenn sem hafa bandarískan ríkisborgararétt að öðlast sæti í landsliði Bandaríkjanna sem tekur þátt í heimsmeistaramóti karla í Egyptalandi í janúar.
Nú um stundir geta þeir sent inn umsókn til Handknattleikssambands Bandaríkjanna sem auglýsir eftir handknattleiksmönnum sem geti hugsað sér að gefa kost á sér í landsliðið að uppfylltum nokkrum skilyrðum.
Spurt er : Ertu bandarískur og ert góður í að hoppa, grípa og kasta bolta?
Til að viðbótar er óskað eftir að áhugsamir láti fylgja með umsókninni allt að 15 mínútna myndskeið þar sem þeir sýna fram á hæfni í eftirfarandi atriðum:
– Hlaupum
– Hoppum
– Senda bolta
– Grípa bolta
– Kasta bolta
– Varnarleik
– Sóknarleik, tæknileg atriði
- Markverðir verða að hafa grunnþekkingu á hlutverkinu, hafa uppi tilburði við að verjast skotum auk þess að hafa getu til þess að kasta boltanum, bæði langt frá sér og skemur.
- Sóknarmaður þarf að sýna hvernig hann tekur þátt í sóknarleik, hefur uppi tilburði til þess að komast framhjá varnarmanni, maður gegn manni.
Ekki er minnst á leikskilning en væntanlega verður það afgreitt síðar. - Einnig er gerð krafa um að áhugasamir séu í það góðu líkamlegu formi þannig að þeir geti komist í gegnum nokkra leiki á skömmum tíma.
Alþjóða handknattleikssambandið veitti Bandaríkjunum keppnisrétt á HM í Egyptalandi á dögunum. Þar með verða Bandaríkin með á HM í sjöunda sinn en þjóðin sendi keppnislið á HM 1964, 1970, 1974, 1993, 1995 og 2001. Ævinlega hefur bandaríska liðið rekið lestina nema á HM 1995 á Íslandi. Þá hreppti það 21. sæti af 24 liðum.
Alls eru leikir Bandaríkjanna á HM til þessa 25 og hafa allir tapast.
Ísland hefur tvisvar leikið á móti Bandaríkjunum á HM og unnið í bæði skiptin, 34:19 árið 1993 í Gautaborg, og 27:16 á HM á Íslandi. Á árum áður leiddu þjóðirnar oft saman hesta sína í vináttulandsleikjum, bæði hér á landi og í Bandaríkjunum.
Ísland dróst ekki í riðil með Bandaríkjunum að þessu sinni.