- Auglýsing -
- Auglýsing -

Karen verður ekki með meisturunum á Ragnarsmótinu

Hafdís Renötudóttir og Karen Knútsdóttir, Framarar. Mynd/Skapti Hallgrímsson, akureyri.net
- Auglýsing -

Handknattleikskonan öfluga, Karen Knútsdóttir, leikur ekki með Íslandsmeisturum Fram á Ragnarsmótinu sem hefst í Sethöllinni á Selfossi annað kvöld. Karen tognaði í kálfa á dögunum og verður frá keppni í einhverjar vikur af þeim sökum.


Karen sagði við handbolta.is í morgun að vonir hennar standi til að verða mætt úr á handboltavöllinn sem Framliðinu um mánaðamótin september og október. „Ég verð aðeins seinni í gang en hinar í ár. Þetta tekur bara sinn tíma,“ sagði Karen í morgun en hún fór á kostum í úrslitakeppninni í vor þegar Fram varð Íslandsmeistari kvenna í 23. sinn í sögu félagsins.

Nokkrar breytingar

Auk Karenar verður Ragnheiður Júlíusdóttir ekki með Ragnarsmótinu. Hún hefur ekki jafnað sig að fullu eftir slæm veikindi snemma árs. Hildur Þorgeirsdóttir er hætt og eftir því sem næst verður komist hefur Stella Sigurðardóttir einnig rifað seglin. Til viðbótar kvaddi Emma Olsson Framliðið í vor og samdi við Borussia Dortmund í Þýskalandi.


Hekla Rún Ámundadóttir, Arna Sif Pálsdóttir og Soffía Steingrímsdóttir markvörður hafa bæst í hópinn hjá Fram.

Fjögur lið á Ragnarsmótinu

Sem fyrr segir hefst Ragnarsmót kvenna í handknattleik annað kvöld. Selfoss og ÍBV mætast í upphafsleiknum klukkan 17.45. Leikur Fram og Stjörnunnar hefst klukkan 20.


Önnur umferð mótsins fer fram á fimmtudaginn og sú þriðja og síðasta á laugardaginn. Leikirnir fara fram í Sethöllinni og verða sendir út á Selfosstv á youtube. Einnig verður fylgst með framvindu mótsins á handbolti.is.

Olísdeildin hefst 15. september

Flautað verður til leiks í Olísdeild kvenna fimmtudaginn 15. september með viðureign Stjörnunnar og Fram í TM-höllinni í Garðabæ. Valur – Haukar eigast við daginn eftir og þann sautjánda lýkur 1. umferð með tveimur leikjum, KA/Þór – ÍBV og HK – Selfoss. Síðastnefnda liðið er nýliði í Olísdeildinni.


- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -