- Auglýsing -
- Auglýsing -

Kemur ekki til greina að hætta við HM

Hassan Moustafa forseti Alþjóða handknattleikssambandsins. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Engan bilbug er að finna á Hassan Moustafa, forseta Alþjóða handknattleikssambandsins, IHF. Moustafa er ákveðinn í að heimsmeistaramótið í handknattleik karla fari fram í Egyptalandi í janúar, nánast hvað sem tautar eða raula. Hann segir mikilvægt að stærsta svið handboltans verði ekki fjarlægt.

Ekki má láta deigan síga

Moustafa segir í ávarpi á heimasíðu IHF að eftir að keppni í íþróttum var stöðvuð í vor þá hafi fólk lært að lifa með veirunni og íþróttastarf hafist á ný. Mikilvægt sé að láta ekki deigan síga, hvort sem um sé að ræða deildarkeppni meðal þjóða eða heimsmeistaramót. Atvinnumenn í handknattleik lifa á að stunda íþróttina. Af þeirri ástæðu skipti höfuðmáli að halda íþróttinni gangandi, ekki aðeins í heimalöndum heldur einnig alþjóðlega. Að fella niður heimsmeistaramót gæti haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar á sýnileika íþróttarinnar, segir Moustafa.

Skiptir öllu fyrir handboltann

„Fyrir handknattleiksíþróttina í heild sinni er fátt ef nokkuð mikilvægara en að 27. heimsmeistaramót karla fari fram. Einnig skiptir það sjónvarpsstöðvar, styrktaraðila, áhorfendur og alla þá sem hafa margvíslegra hagsmuni að gæta miklu máli.“ Eitthvað í þá veru skrifar Moustafa sem undirstrikar að fjárhagsstaða IHF sé sterk. Það sé ekki helsta ástæða þess að ekki komi til greina að fella niður HM í janúar nk.

Sóttvarnir í öndvegi

Moustafa segir svokallaðan „búbblubúskap” verða í hávegum hafðan á HM. Sama hafi verið gert í kringum fleiri íþróttagreinar og mót víða um heiminn. Tryggt verði að öryggi allra þátttakenda HM sé eins og best verður á kosið. Sóttvarnir og heilbrigði í öndvegi og allar áætlanir verði endurskoðaðar eins og þurfa þyki. Vísar Moustafa til að heilbrigðisyfirvöld í Egyptalandi séu og verði vakin og sofin á vakt sinn við að koma í veg fyrir að kórónuveiran knýi á dyr mótsins.

Samstaða skiptir öllu máli

Að lokum hvetur Moustafa alla til þess að halda í jákvæðni og samstöðu. Saman séum við sterkari. Markmið IHF verði að halda „hreint“ heimsmeistaramót. Það verði hinsvegar ekki mögulegt nema með samstöðu allra sem að málum koma.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -