Rakel Dögg Bragadóttir, þjálfari liðs Stjörnunnar í Olísdeild kvenna segir að vel hafi gengið að halda úti æfingum og leikmönnum við efnið á undanförunum vikum. Ekki sé þó laust við að óþreyju sé farið að gæta. Reynt sé að halda úti sameiginlegum æfingum í gegn Zoom samskiptaforritið m.a. til að styrkja samband leikmanna. Hafi það gefist vel.
Sá tími sem hafi verið heimilt að æfa innanhúss hafi reynst dýrmætur út frá félagslega sjónarmiði þótt fátt hafi mátt gera sem tengist handknattleik.
Rakel Dögg segir að áhersla sé lögð á það hjá Stjörnuliðinu að konurnar hafi einn „frjálsan“ æfingadag í viku auk helganna þar sem þær eru hvattar til að rækta líkama og sál á óhefðbundinn hátt, t.d. með fjallgöngu, hjólaferð, hugleiðslu eða heimayoga.
Hætta á við alþjóðlega leiki
Það er skoðun Rakelar Daggar að alþjóðleg handknattleikssambönd eigi að hætta við alla leiki og mót á sínum snærum þannig að hægt verði að leika sem mest innanlands og halda deildarkeppni áfram.
Rakel Dögg telur það geta orðið lausn á deildarkeppninni að hætta við þriðju umferðina og leika tvöfalda umferð í Olísdeild kvenna áður en úrslitakeppnin hefst. Eins telur Rakel að allir verði að búa sig undir að aftur geti komið til þess að hlé verði gert keppni í deildinni vegna veirunnar.
Handbolti.is sendi Rakel Dögg, eins og fleiri þjálfurum í Olís,- og Grill 66-deildunum nokkrar spurningar og eru svör hennar hér að neðan.
Styrkja sambandið
Hvernig hefur gengið að halda leikmönnum við efnið síðustu vikur?
„Það hefur gengið ágætlega þó maður finni fyrir ákveðinni þreytu og óþolinmæði yfir stöðunni. Stelpurnar hafa verið að vinna eftir prógrammi frá okkur þjálfurum en einnig hist á Zoom og tekið æfingu saman heima úr stofu. Okkur finnst það gera mikið fyrir hópinn, hvetur þær áfram og styrkir sambandið á milli leikmanna.“
Nýttist þessi rúma vika innanhúss eitthvað að ráði?
„Mest nýttist hún andlega. Maður fann að þeim fannst gott að komast inn í sal og hittast, jafnvel þó æfingarnar hafi verið með ströngum skilyrðum og lítið hægt að gera sem við kemur hefðbundnum handbolta.“
Hæfilega bjartsýn
Hvernig horfir þú til næstu vikna sem þjálfari?
„Það reynir á okkur þjálfarana að vera með dagsskrá sem heldur leikmönnum á tánum en jafnframt gefur þeim færi á að halda geðheilsu. Stelpurnar fá einn „frjálsan” æfingadag í viku auk helganna þar sem við hvetjum þær til að rækta líkama og sál á óhefðbundinn hátt, t.d. með fjallgöngu, hjólaferð, hugleiðslu eða heimayoga. Þær pósta svo inn á sameiginlega síðu hjá okkur til að bæði hvetja hvora aðra og gefa hvorri annarri hugmyndir. Varðandi framhaldið þá er maður búinn að læra það að vera hæfilega bjartsýnn og taka bara því sem kemur. Við vonumst auðvitað til að geta byrjað sem fyrst en erum jafnframt undir það búin að þetta dragist enn lengra.“
Er eitthvað hægt að velta framhaldinu fyrir í sér í deildarkeppninni meðan óljóst er hvenær verður hægt að hefja æfingar af einhverjum krafti?
„Það er mjög erfitt þar sem óvissan er svo rosalega mikil. Við Sjonni verðum bara að vera kvik að setja upp plan þegar línurnar skýrast frekar. Við horfum í rauninni bara 1-2 vikur fram í tímann eins og staðan er í dag.“
Réttast að fækka leikjum
Heldur þú að svo geti farið að ekki verði leikið aftur í Olísdeild kvenna fyrr en eftir áramótin?
„Það gæti vel verið að það fari svo, og mögulega er það jafnvel besta lausnin. Þannig væri hægt að fækka umferðum úr þremur í tvær og halda tímaplani deildar. Ég hallast mest að því að það sé besta niðurstaðan svo leikjaálagið á leikmenn verði ekki of mikið. Mér finnst reyndar að EHF og IHF ættu að fresta landsliðspásunni sem á að vera núna í lok nóvember. Mér finnst galið að leikmenn frá ýmsum löndum komi saman á þessum tímapunkti, meðan faraldurinn er í svo miklum vexti, og að mínu mati ætti að fresta öllum landsleikjum og Evrópuleikjum. Þannig væri frekar hægt að einblína á deildirnar heima og ef við á Íslandi náum góðum tökum á þessu með þessum nýju hertum reglum þá væri jafnvel hægt að spila 2-3 umferðir í desember. Við verðum líka að undirbúa okkur fyrir það að það eru líkur á því að það þurfi að stoppa deildina nokkrum sinnum í viðbót í vetur.“