- Auglýsing -
- Auglýsing -

Kiel í úrslitaleikinn eftir ævintýralega spennu

Leikmenn Kiel dansa stríðsdans eftir að sæti í úrslitaleik Meistaradeildarinnar var höfn. Gasper Marguc leikmaður Veszprém fylgir vonsvikinn með. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Kiel mætir Aroni Pálmarssyni og samherjum í Barcelona í úrslitum Meistaradeildar Evrópu í handknattleik í Köln klukkan 19.30 annað kvöld. Það liggur fyrir eftir ævintýralega spennandi undanúrslitaleik Kiel og Veszprém í kvöld þar sem Kiel vann með eins marks mun, 36:35, eftir framlengdan háspennuleik. Kiel skoraði fjögur af síðustu fimm mörkum leiksins í síðari hluta framlengingarinnar.



Þetta verður í áttunda sinn sem Kiel leikur til úrslita í Meistaradeild Evrópu en liðið hefur þrisvar sinnum farið með sigur úr býtum í keppninni. Síðasta 2012. Um leið er þetta í fyrsta sinn í sex ár sem þýsk lið leikur til úrslita í Meistaradeild Evrópu en þá mættust reyndar tvö þýsk lið í úrslitaleiknum, Flensburg og Kiel þar sem fyrrnefnda liðið hrósaði sigri.
Ólánið heldur hinsvegar áfram að elta ungverska liðið í keppninni. Það hefur frá 2002 alls níu sinnum komist í undanúrslit en aðeins þrisvar í úrslitaleikinn og tapað honum í öll skiptin.

Kiel-liðið lék afar vel í fyrri hálfleik. Sérstaklega var varnarleikur liðsins afar góður og í framhaldinu vel útfærð hraðaupphlaup. Fimm marka munur var að loknum fyrri hálfleik, 18:13, og fátt sem benti til þess að leikmenn Veszprém myndu snúa taflinu við eftir hraðan fyrri hálfleik.


Á upphafsmínútum síðari hálfleiks héldu leikmenn Kiel áfram frumkvæðinu. En skyndilega snerist leikurinn með ungverska liðinu. Það jafnaði metin og komst yfir, 28:24, þegar 10 mínútur voru til leiksloka. Þá virtust öll vötn falla með leikmönnum Veszprém. Sú varð ekki raunin. Leikmenn Kiel með Króatann Domagoj Duvnjak fremstan meðal jafningja sneru leiknum sér í hag. Þeir skoruðu fimm mörk í röð og komust yfir, 29:28. Leikmenn Veszprém jöfnuðu metin, 29:29, þegar rúm mínúta var til leiksloka. Ekki var meira skorað og var þá gripið til framlengingar.


Veszprém var tveimur mörkum yfir, 34:32, eftir fyrri fimm mínútur framlengingarinnar. Leikmenn Kiel jöfnuðu fljótlega, 34:34. Síðustu mínúturnar voru ævintýralega spennandi en það voru leikmenn þýska liðsins sem fögnuðu. Í sjöunda sinn verður Veszprém að sætta sig við þriðja eða fjórða sæti í Meistaradeildinni.


Hendrik Pekeler skoraði átta mörk fyrir Kiel og var markahæstur. Niclas Ekberg var næstur með sjö og Sandor Sagosen skoraði fimm mörk.
Gasper Marguc og Vuko Borozan skoruðu sjö mörk hvor fyrir Veszprém. Yahia Fathy Omar var næstur með fimm mörk.


Veszprém og PSG mætast í leiknum um þriðja sætið klukkan 17 á morgun og klukkan 19.30 hefst úrslitaleikur Kiel og Barcelona.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -