- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Kínverjar brotnir á bak aftur – Ísland í úrslitaleik

Glaðbeittir leikmenn íslenska landsliðsins eftir sigurinn á Kínverjum í kvöld. Efri röð f.v. Díana Dögg Magnúsdóttir, Elísa Elíasdóttir, Þórey Anna Ásgeirsdóttir, Thea Imani Sturludóttir, Sunna Jónsdóttir, Þórey Rósa Stefánsdóttir, Jóhanna Margrét Sigurðardóttir, Berglind Þorsteinsdóttir, Hafdís Renötudóttir, Hildigunnur Einarsdóttir, Elín Jóna Þorsteinsdóttir. Neðri röð f.v.: Katla María Magnúsdóttir, Perla Ruth Albertsdóttir, Sandra Erlingsdóttir, Lilja Ágústsdóttir, Elín Rósa Magnúsdóttir. Mynd/Gurrý
- Auglýsing -

Íslenska landsliðið leikur til úrslita um forsetabikarinn í handknattleik á heimsmeistaramóti kvenna í Frederikshavn í Danmörk á miðvikudaginn. Ísland lagði landslið alþýðulýðveldisins Kína, 30:23, í síðasta leik riðlakeppni forsetabikarsins í kvöld. Kínverska liðið var brotið á bak aftur á síðustu 10 mínútum leiksins eftir að hafa verið með frumkvæðið frá upphafi.


Andstæðingurinn verður landslið Kongó og flautað verður til leiks í Arena Nord á miðvikudagskvöld klukkan 19.30. Þar með getur kvennalandsliðið unnið sinn fyrsta bikar í alþjóðlegri keppni frá árinu 1964 þegar Ísland varð Norðurlandameistari.

Eftir að Ísland komst yfir, 3:2, gaf það yfirhöndina aldrei eftir. Þegar á leið fyrri hálfleiks jókst munurinn og varð mestur, 13:9, áður en Kínverjar skoruðu tvö síðustu mörkin fyrir hlé.

Íslenska liðið náði hvað eftir eftir annað tveggja til þriggja marka forskoti í síðari hálfleik. Kínverska sveitin náði alltaf að koma til baka og jafna metin, síðast 21:21, þegar 11 mínútur og 11 sekúndur voru til leiksloka. Lokakaflinn var íslenskur. Kínverska liðið sprakk á limminu og varð að játa sig sigrað.

Sigurinn var verðskuldaður og sætur nærri lokum á löngum og ströngum vikum. Næst á dagskrá er að ljúka verkefninu með því að leggja Kongó á miðvikudagskvöld.

Varnarleikur íslenska liðsins var til fyrirmyndar í þessum annars ágæta leik íslenska liðsins. Elín Rósa Magnúsdóttir var frábær í sóknarleiknum og lék sinn besta leik í keppninni og var verðskuldað valin maður leiksins. Oft má deila um valið eftir kappleiki á mótinu en að þessu sinni var það óumdeilt.

Mörk Íslands: Sandra Erlingsdóttir 6/4, Elín Rósa Magnúsdóttir 6, Thea Imani Sturludóttir 5, Hildigunnur Einarsdóttir 3, Lilja Ágústsdóttir 3, Díana Dögg Magnúsdóttir 3, Þórey Anna Ásgeirsdóttir 2, Perla Ruth Albertsdóttir 1, Þórey Rósa Stefánsdóttir 1.
Varin skot: Elín Jóna Þorsteinsdóttir 8, 40% – Hafdís Renötudóttir 1, 10%.

Handbolti.is er í Arena Nord og fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -