- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Kínverska liðið það besta af liðunum þremur

Þórey Rósa Stefánsdóttir er harðákveðin í að vinna forsetabikarinn. Mynd/Carina Johansen - EPA
- Auglýsing -

„Kínverska liðið er það besta af þeim þremur sem við mætum í riðlakeppninni. Það er ljóst. Kínverjarnir leik nokkuð agaðan leik, ólíkt því sem maður á stundum að venjast frá Asíuliðunum sem reyna oft að fara áfram á kraftinum. Þetta er hreinn úrslitaleikur fyrir okkur á leiðinni að forsetabikarnum mikla,“ sagði Þórey Rósa Stefánsdóttir landsliðskona í handknattleik í samtali við handbolta.is í aðdraganda viðureignarinnar við Kínverja í þriðju og síðustu umferð riðlakeppni forsetabikarsins í handknattleik kvenna í Frederikshavn í Danmörku. Flautað verður til leiks klukkan 17.


Eins og Þórey Rósa nefnir er um úrslitaleik að ræða. Kínverska liðið hefur unnið tvo fyrstu leiki sína í keppninni eins og það íslenska. Sigurliðið leikur til úrslita á miðvikudagskvöld.

Íslenska liðinu nægir jafntefli vegna hagstæðari markatölu eftir stærri sigra á Grænlendingum og Paragvæ en Kínverjar náðu.

Þórey Rósa Stefánsdóttir leikreyndasti leikmaður kvennalandsliðsins um þessar mundir slær á létta stengi með ungum stuðningsmönnum í leik heima í haust. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Laugardagurinn var pínu erfiður

Spurð hvort ekki væri komin þreyta í mannskapinn sem hefur verið saman í nærri þrjár vikur sagði Þórey Rósa að í hreinskilni sagt þá hafi laugardaginn verið „pínu erfiður“ eins og hún sagði.

„Samveran er löng og vonbrigðin talsverð að komast ekki áfram í milliriðlakeppnina, sérstaklega hvernig við komumst ekki áfram, það er á minnsta mun. Við lítum á okkur sem lið sem á heima í milliriðli en ekki í forsetabikarnum,“ sagði Þórey Rósa sem telur að hópurinn sé klár í að leggja allt í sölurnar í dag og fara í úrslitaleik við Chile eða Kongó á miðvikudaginn.

Aldrei í hættu

„Okkur tókst að trekkja okkur vel upp í leikinn við Grænland en mér gekk að minnsta kosti illa að trekkja mig upp í leikinn við Paragvæ. Að því sögðu var rosalega sterkt hjá okkur að vinna, og vinna þannig að sigurinn var aldrei í hættu. Markmið okkar er að taka þrjá síðustu dagana með trompi. Ég er bara mjög spennt fyrir tveimur síðustu leikjunum,“ sagði Þórey Rósa Stefánsdóttir landsliðskona í handknattleik í samtali við handbolta.is í Frederikshavn.


Viðureign Íslands og Kína hefst klukkan 17 í dag í Nord Arena í Frederikshavn á norður Jótlandi. Þeir sem ekki eiga þess kost að fylgjast með sjónvarpsútsendingu RÚV eiga þess vonandi kost að fylgjast með textalýsingu handbolta.is úr Nord Arena. Handbolti.is fylgir íslenska landsliðinu á HM frá upphafi til enda HM í gegnum súrt sem sætt.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -