0
„Það er komin smá spenna í mann,“ segir Steinunn Björnsdóttir landsliðskona í handknattleik í samtali við handbolta.is. Þrátt fyrir að hafa lengi leikið með landsliðinu hefur Steinunn ekki fyrr en nú tekið þátt í stórmóti í handknattleik. Á föstudaginn verður hún klár í slaginn í fyrsta leik Íslands á Evrópumótinu, gegn Hollendingum, í Ólympíuhöllinni í Innsbruck. Flautað verður til leiks klukkan 17.
„Það er mikil tilhlökkun í hópnum. Við byrjuðum að skoða hollenska landsliðið í dag og höldum því áfram á morgun. Hollenska liðið vill hlaupa mikið og þess vegna verðum við að vera skynsamar að róa leikinn svo við förum ekki framúr okkur,“ segir Steinunn og undirstrikar gildi landsliðsins.
Steinunn segir að vel fari um landsliðið í fallegu umhverfi Innsbruck innan um há og falleg fjöll, hreint súrefni Alpanna og síðasta enn ekki síst gott vatn. „Við þurfum ekkert meira.“
Lengra viðtal er við Steinunni í myndskeiðinu efst í fréttinni.
Leikir Íslands í F-riðli EM kvenna 2024:
29. nóvember: Ísland - Holland, kl. 17.
1. desember: Ísland - Úkraína, kl. 19.30.
3. desember: Ísland - Þýskaland, kl. 19.30.
Sjá einnig: EM kvenna ”24 – leikjadagskrá, riðlakeppni
A-landslið kvenna – fréttasíða.