- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Kominn tími til þess að stíga næsta skref

Elín Klara Þorkelsdóttir í leik með íslenska landsliðinu á EM í lok síðasta árs. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -


„Mér finnst vera kominn tími til að taka næsta skref í handboltanum,“ segir Elín Klara Þorkelsdóttir leikmaður Hauka og íslenska landsliðsins í samtali við handbolta.is eftir tilkynnt var í morgun að hún hafi gert þriggja ára samning við sænska meistaraliðið IK Sävehof.

„Sävehof er sterkt lið og ég tel mig geta vaxið og þróast áfram sem leikmaður með því færa mig um set,“ segir Elín Klara sem fundið hafði fyrir áhuga fleiri liða áður en hún gerði upp hug sinn.

Erfitt að gera upp á milli

„Mér þótti erfitt að velja á milli en ákvað að semja við Sävehof vegna þess að það er afar góð umgjörð hjá félaginu, vel hlúð að leikmönnum og æfingaaðstaða upp á tíu auk góðs stuðnings utan vallar sem innan,“ sagði Elín Klara.

Sävehof hefur orðið sænskur meistari þrjú undanfarin ár og alls sautján sinnum frá upphafi sem gerir félagið að því sigursælasta í sænskum kvennahandknattleik.

Meiri reynsla

Elín segir ennfremur að það hafi einnig haft áhrif á ákvörðun sína að forráðamenn Sävehof stefni á þátttöku í Evrópukeppni næsta tímabil eins og á undanförnum árum. „Þar með fæ ég aukna reynslu af alþjóðlegum handbolta sem skiptir miklu máli.“

IK Sävehof komst ekki í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í vetur vegna þess að liðið tapaði fyrir KGHM MKS Zaglebie Lubin frá Póllandi í síðari umferð undankeppninnar, samalagt 55:53.

Áhugi frá síðasta sumri

Elín Klara segir áhuga stjórnenda Sävehof fyrir sér hafi vaknað þegar Haukar tóku þátt í æfingamóti í Svíþjóð í ágúst.

„Mér finnst þetta vera rétta skrefið fyrir mig. Auk þess þá kannast ég við nokkrar í liðinu sem eru á svipuðum aldri og ég er á. Við höfum oft verið andstæðingar á stórmótum yngri landsliða á síðustu árum og einnig með A-landsliðinu.“

Vangaveltur á síðasta ári

Elín Klara segist hafa stefnt að því undanfarin ár að reyna fyrir sér ytra. „Ég var að hugsa um þessi mál í fyrra en ákvað að taka eitt tímabil í viðbót með Haukum. Nú tel ég vera réttan tíma til þess að söðla um. Ég er að verða 21 árs og reynslan hefur vaxið jafnt og þétt til að takast á við fleiri verkefni,“ segir Elín Klara Þorkelsdóttir verkfræðinemi, nýkrýndur bikarmeistari með Haukum og landsliðskona í handknattleik.

Sjá einnig: Elín Klara hefur samið við IK Sävehof til þriggja ára

IK Sävehof er sautjánfaldur sænskur meistari í kvennaflokki, þar af hefur félagið, sem er með bækistöðvar í Partille nærri Gautaborg, unnið meistaratitilinn þrjú síðustu ár. Um þessar mundir er IK Sävehof í efsta sæti úrvalsdeildinnar. IK Sävehof var síðast með Meistaradeild Evrópu keppnistímabilið 2023/2024.
Birna Berg Haraldsdóttir lék með IK Sävehof 2013 til 2015 og varð á þeim tíma fyrst íslenskra kvenna til þess að taka þátt í Meistaradeild Evrópu.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -