Handknattleikskonan Kristín Aðalheiður Jóhannsdóttir hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við KA/Þór og leikur því með áfram með liðinu í Olísdeildinni og Poweradebikarnum á komandi leiktíð sem er á næstu grösum. Kristín Aðalheiður er uppalin hjá KA/Þór og var m.a. í Íslands- og bikarmeistaraliðinu vorið 2021.
„Kristín leikur í vinstra horni en hún er nýorðin 24 ára gömul og verið lykilþáttur í uppgöngu liðsins undanfarin ár. Hún hefur leikið alls 99 leiki í deild, bikar og Evrópu fyrir KA/Þór og ljóst að næsti leikur hennar verður því sögulegur,“ segir í tilkynningu KA.
Á síðustu leiktíð lék Kristín 21 leik fyrir KA/Þór og gerði í þeim 44 mörk en með KA/Þór hefur hún unnið allt sem hægt er að vinna rétt eins og faðir hennar gerði með karlaliði KA á árum áður en faðir hennar er Jóhann Gunnar Jóhannsson. Hann lék alls 417 keppnisleiki fyrir KA og sótti fram í hægra horninu.