- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Kristinn í eins leiks bann – „ósæmileg framkoma“ enn til skoðunar

spjald - spjöld
- Auglýsing -

Kristinn Björgúlfsson þjálfari karlaliðs ÍR í Grill66-deildinni var úrskurðaður í eins leiks bann á fundi agarnefndar HSÍ á þriðjudaginn en úrskurður nefndarinnar var ekki birtur fyrr en í gærkvöld á vef Handknattleikssambands Íslands. Erindi sem snýr að framkomu forsvarsmanns og áhorfenda Harða á kappleik 13. nóvember er hinsvegar enn til skoðunar.

Mál Kristins, sem sneri að gagnrýni sem hann hafði uppi í samtali við handbolta.is á störf dómara í leik ÍR og Harðar 13. nóvember, var fyrst tekið fyrir á fundi nefndarinnar í síðustu viku en úrskurði frestað fram í þessa viku á meðan aflað var frekari gagna. Kristinn baðst innilega afsökunar á orðum sínum.

Aftur vísað úr húsi

Aganefnd er enn að ígrunda erindi vegna framkomu forsvarsmanns og áhorfanda Harðar í leik ÍR og Harðar í Grill66-deild karla 13. nóvember. Erindið var fyrst tekið upp á fundi 16. nóvember. Forsvarsmanni Harðar og áhorfenda var vísað út úr húsi af dómara vegna ósæmilegrar framkomu.

Var það í annað sinn á skömmum tíma sem svipað atvik átti sér stað í tengslum við leiki Harðarliðsins á höfuðborgarsvæðinu. Frestaði aganefnd málinu til næsta fundar í næstu viku.


Aganefnd tók einnig fyrir útilokanir sem Berglind Benediktsdóttir, HK, Ísak Logi Einarsson, Val U, Egill Björgvinsson, Kórdrengjum, og Þrándur Gíslason Roth, Aftureldingu, fengu í leikjum síðustu daga. Ekkert þeirra var úrskurðað í leikbann.


Lesa má úrskurð aganefndar HSÍ 23. nóvember hér fyrir neðan:

“Úrskurður aganefndar 23. nóvember 2021

Eftirtalin mál lágu fyrir og var tekið til úrskurðar:

  • Berglind Benediktsdóttir leikmaður Hauka hlaut útilokun með skýrslu vegna grófs leikbrots í leik HK og Hauka í Grill66 deild kvenna þann 16.11.2021.  Dómarar meta að brotið falli undir reglu 8:5 a). Með tilvísun í 10. grein reglugerðar HSÍ um agamál er það niðurstaða aganefndar að ekki skuli aðhafst frekar vegna málsins en vakin er þó athygli á stighækkandi áhrifum útlokana vegna slíkra brota, skv. 2. mgr. 11. sömu reglugerðar.45
  • Ísak Logi Einarsson leikmaður Vals U hlaut útilokun með skýrslu vegna grófs leikbrots í leik Valur U og Berserkja í Grill66 deild karla þann 21.11.2021.  Dómarar meta að brotið falli undir reglu 8:5 a). Með tilvísun í 10. grein reglugerðar HSÍ um agamál er það niðurstaða aganefndar að ekki skuli aðhafst frekar vegna málsins en vakin er þó athygli á stighækkandi áhrifum útlokana vegna slíkra brota, skv. 2. mgr. 11. sömu reglugerðar.
  • Egill Björgvinsson leikmaður Kórdrengja hlaut útilokun með skýrsla vegna grófrar óíþróttamannslegrar hegðunar í leik Kórdrengir og Hörður í Grill 66 deild karla þann 21.11.2021. Dómarar meta að brotið falli undir reglu 8:9 e). Með tilvísun í 10. grein reglugerðar HSÍ um agamál er það niðurstaða aganefndar að ekki skuli aðhafst frekar vegna málsins en vakin er þó athygli á stighækkandi áhrifum útlokana vegna slíkra brota, skv. 2. mgr. 11. sömu reglugerðar.
  • Þrándur Gíslason Roth leikmaður Aftureldingar hlaut útilokun með skýrslu vegna grófs leikbrots í leik Vals og Aftureldingar í Olís deild karla þann 22.11.2021.  Dómarar meta að brotið falli undir reglu 8:5 a). Með tilvísun í 10. grein reglugerðar HSÍ um agamál er það niðurstaða aganefndar að ekki skuli aðhafst frekar vegna málsins en vakin er þó athygli á stighækkandi áhrifum útlokana vegna slíkra brota, skv. 2. mgr. 11. sömu reglugerðar.
  • Aganefnd hefur borist erindi frá framkvæmdarstjóra HSÍ vegna framkomu forsvarsmanns og áhorfanda Harðar í leik ÍR og Harðar í Grill 66 deild karla 13. nóvember. Í skýrslunni kom fram að forsvarsmanni Harðar hafi verið vísað úr húsi af dómara vegna ósæmilegrar framkomu.  
    Handknattleiksdeild Harðar var gefinn frestur til að skila inn greinargerð sem barst aganefnd, í formi þriggja tölvuskeyta. Með hliðsjón af svörum handknattleiksdeild Harðar telur nefndin rétt að fresta málinu og afla frekari gagna.
    Máli þessu er frestað til næsta fundar aganefndar.
  • Aganefnd hefur borist erindi frá framkvæmdastjóra HSÍ vegna ummæla sem Kristinn Björgúlfssonar, þjálfara ÍR, sem birtust á vefnum handbolti.is, þann 14. nóvember 2021, í kjölfar leiks ÍR og Harðar í Grill 66 deild karla. Í samræmi við 18.gr. reglugerðar HSÍ um agamál var ÍR gefinn kostur á að skila inn skriflegri greinargerð. Greinargerð hefur borist frá ÍR.
    Samkvæmt 18. gr. reglugerðar HSÍ um agamál er stjórn eða framkvæmdastjóra HSÍ heimilt að vísa til aganefndar atvikum sem skaðað geta ímynd handknattleiksíþróttarinnar. Um getur verið að ræða hvers kyns ósæmilega
    framkomu innan eða utan leiks eða á annan hátt         opinberlega. Aganefnd hefur farið yfir umrædd ummæli. Aganefnd tekur undir að þjálfarinn hefði í viðtalinu mátt viðhafa varfærnislegra orðalag og að téð ummæli séu honum ekki til framdráttar. Með vísan til fyrri fordæma er það hins vegar mat nefndarinnar að gera verður í þessum efnum greinarmun á, annars vegar ummælum sem fela í sér almenna gagnrýni á störf dómara og hins vegar alvarlegum aðdróttunum í garð einstakra aðila, ásakanir um óheiðarleika eða aðra viðlíka háttsemi. Telur nefndin að umrædd ummæli falli undir hvoru tveggja, en með orðum sínum ásakar hann dómara leiksins um að draga taum annars liðsins. Slík háttsemi gengur gegn 18. gr. reglugerðar HSÍ um agamál og eru til þess falllin að skaða ímynd íþróttarinnar út á við. Þá hefur Kristinn gengist við því að ummælin hafi ekki verið sanngjörn í garð dómara leiksins. Með vísan til alls framangreinds er niðurstaða nefndarinnar að ummælin feli í sér ósæmilega framkomu sem skaðað getur ímynd handknattleiksíþróttarinnar. Að mati nefndarinnar er tilefni til að láta aðila sæta viðurlögum í máli þessu og áréttar mikilvægi þess að þjálfarar líkt og leikmenn liða sýni í orðum og í verki þá almennu háttvísi og framkomu sem samboðin er handknattleiksíþróttinni.
    Aganefnd telur því ljóst að umrætt atvik uppfylli öll skilyrði 18. gr. reglugerðar HSÍ um agamál. Telur aganefnd með hliðsjón af atvikum málsins að eins leiks bann sé hæfilega ákvörðuð.
    Kristinn Björgúlfsson þjálfari ÍR er því úrskurðaður í eins leiks bann.

Fleiri mál lágu ekki fyrir.

Úrskurðinn kváðu upp Arnar Kormákur Friðriksson, Sverrir Pálmason og Arnar Þór Sæþórsson.”

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -