Handknattleikskonurnar Kristrún Steinþórsdóttir og Lena Margrét Valdimarsdóttir hafa samið við handknattleiksdeild Selfoss til næstu tveggja ára. Kristrún kemur til félagsins frá Fram en Lena Margrét úr Stjörnunni en hún er reyndar uppalin hjá Fram. Báðar söðla um í sumar.
Kristrún er rétthent skytta og er uppalin Selfyssingur og kemur því aftur heim í sitt uppeldisfélag eftir að hafa leikið í nokkur ár með Fram frá 2019 og m.a. orðið Íslandsmeistari með liðinu fyrir ári. Kristrún á að baki 139 leiki fyrir Selfoss og hefur skorað í þeim 401 mark.
Lena Margrét er örvhent skytta og er uppalin í Fram en hefur leikið síðustu tvö ár með Stjörnunni. Hún varð Íslandsmeistari með Fram 2018 auk þess að verða bikarmeistari með liðinu 2018 og 2020. Hún varð sjötti markahæsti leikmaður Olísdeildar kvenna sem lauk á dögunum með 109 mörk.
Lena Margrét og Kristrún hafa leikið nokkra landsleiki hvor.
Ljóst er að forráðamenn Selfoss eru frekar að blása til sóknar en hitt fyrir næsta keppnistímabil. Ekki er langt síðan að landsliðskonan Perla Ruth Albertsdóttir ákvað að ganga á ný til liðs við Selfoss í sumar eftir veru hjá Fram.
Perla Ruth leikur með Selfossi á nýjan leik
- Ég virði hennar ákvörðun
- Haukar eru á leiðinni til Ploče – tvær viðureignir standa fyrir dyrum
- Serbnesk skytta hefur kvatt Hörð
- Er ástæða til þess að draga of miklar ályktanir?
- Dagskráin: Nokkrar viðureignir – fjórar deildir