- Auglýsing -
- Auglýsing -

Króatar unnu heimamenn sem leika til undanúrslita

Króatar fagna sigri á Þjóðverjum. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Króatar lögðu Þjóðverja í síðasta leik milliriðlakeppni Evrópumótsins í handknattleik karla í kvöld, 30:24, að viðstöddum nærri 20 þúsund áhorfendum í Lanxess Arena í Köln. Sigurinn breytir ekki þeirra staðreynd að Króatar reka lestina í milliriðli eitt og hafna í 11. sæti Evrópumótsins, næst á eftir íslenska landsliðinu. Þýskaland var marki yfir í hálfleik, 14:13, eftir að hafa skorað þrjú síðustu mörk hálfleiksins.

Hinn ungi markvörður Króata, Dominik Kuzmanovic, átti stórleik. Hann varði 22 skot, 48%.

Þjóðverjar voru fyrir leikinn öruggir um sæti í undanúrslitum. Þeir mæta Dönum á föstudagskvöld klukkan 19.30 í Lanxess Arena eftir að Frakkar og Svíar verða búnir að gera upp reikningana í hinni viðureign undanúrslita EM. Leikur Frakka og Svía hefst klukkan 16.45. Úrslitaleikirnir verða á sunndag.

Svíar eða Þjóðverjar beint á ÓL?

Vegna þess að Frakkar og Danir hafa þegar tryggt sér sæti í handknattleikskeppni Ólympíuleikanna er ljóst að annað hvort Svíar eða Þjóðverjar geta farið sem fulltrúar Evrópumeistara ef annað hvort Frakkland eða Danmörk verður Evrópumeistari.

Klukkan 14 á föstudaginn eigast Slóvenar og Ungverjar við í leik um 5. sætið en röðin skiptir máli vegna skiptingar liðanna í riðla fyrir forkeppni Ólympíuleikanna sem fram fer 14. – 17. mars.

Leikir undanúrslita

Föstudagur 26. janúar – Lanxess Arena Köln:
14.00: Slóvenía – Ungverjaland, 5. sætið.
16.45: Frakkland – Svíþjóð.
19.30: Þýskaland – Danmörk.

Leikurinn um bronsverðlaunin hefst klukkan 14 á sunnudaginn og úrslitaleikurinn klukkan 16.45.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -