Ekkert verður af því að landslið Kúbu taki þátt í undankeppni heimsmeistaramóts kvenna í handknattleik sem stendur fyrir dyrum í Chicago í Bandaríkjunum 23. til 27. ágúst. Um er að ræða undankeppni fyrir ríki Norður-Ameríku og eyjanna í Karabíahafi.
Kórónuveiran hefur sett strik í reikninginn og nú standa aðeins landslið fimm þjóða eftir en nokkur hafa hrokkið úr skaftinu. Landslið Kúbu er það nýjasta en það er ríkjandi meistari og því skarð fyrir skildi.
Kúba ákvað að draga sig úr keppni þrátt fyrir að eiga talsverða möguleika á að vinna keppnina og taka þar með þátt í heimsmeistaramótinu sem fram fer á Spáni í desember. Tvennt mun aðallega koma til að Kúbverjar tóku þá ákvörðun að vera ekki með að þessu sinni.
Kórónuveiran herjar af miklum þunga á eyjaskeggja um þessar mundir með tilheyrandi búsifjum og útgöngutakmörkunum sem gerir erfitt um vik við æfingar. Þess utan þá hefur kórónuveiran bætt gráu ofan á fjárhagslega svart ástand þjóðarinnar með þeim afleiðingum að þröngt er í búi og erfitt að standa undir kostnaði við undirbúning og ferðalög vegna undankeppninnar. Hvað þá ef svo færi að landsliðinu tækist að tryggja sér farseðilinn til Spánar á heimsmeistaramótið.
Þjóðirnar fimm sem berjast því um HM farseðilinn í undankeppninni í Chicago í lok ágúst eru Grænland, Mexíkó, Puerto Rico, Bandaríkin og Dóminíska lýðveldið. Reyndar hafa leikmenn og fylgifiskar síðastnefndu þjóðarinnar ekki fengið loforð fyrir vegabréfsáritun til Bandaríkjanna enn sem komið er. Vonir standa til að úr rætist í þeim efnum fyrr en síðar.