Gísli Þorgeir Kristjánsson, Ómar Ingi Magnússon og samherjar í SC Magdeburg luku keppnisárinu í þýsku 1. deildinni í handknattleik með öruggum átta marka sigri á Hannover-Burgdorf, 33:25, á heimavelli í kvöld. Magdeburg situr þar með í fimmta sæti deildarinnar yfir áramótin og fram í byrjun febrúar þegar þráðurinn verður tekinn upp eftir heimsmeistaramótið í Egyptalandi.
Ómar Ingi Magnússon skoraði sex mörk í sjö skotum fyrir Magdeburg-liðið sem var með talsverða yfirburði í leiknum og var m.a. níu mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 19:10. Ómar Ingi skoraði fjögur marka sinna úr vítaköstum. Hann átti einnig fimm stoðsendingar. Gísli Þorgeir skoraði tvö mörk úr tveimur markskotum.
Zeljko Musa var markahæstur hjá Magdeburg ásamt Ómari Inga. Lukas Mertens var næstur með fimm mörk.
Fabian Böhm var markahæstur hjá Hannover-Burgdorf með fimm mörk.
Fjórir síðustu leikir ársins í þýsku 1. deildinni fara fram á morgun.
Staðan í þýsku 1. deildinni:
Flensburg 23(13), Kiel 22(12), Rhein-Neckar Löwen 21(14), Füchse Berlin 19(12), Magdeburg 19(14), Leipzig 17(14), Bergischer 16(15), Göppingen 15(14), Stuttgart 15(15), Wetzlar 15(15), Lemgo 15(15), Hannover-Burgdorf 14(15), Melsungen 13(10), Erlangen 13(15), GWD Minden 10(12), Nordhorn 8(15), Balingen-Weilstetten 7(15), Ludwigshafen 6(15), Essen 5(12), Coburg 3(14).